Þessa dagana standa yfir skil á fjárvörsluyfirlýsingum til LMFÍ en lögmönnum, sem ekki hafa fengið undanþágu frá skyldum 1. mgr. 12. gr. lögmannalaga, ber að senda félaginu yfirlýsingu, fyrir 1. október ár hvert, staðfesta af löggiltum endurskoðanda, um að staða fjárvörslureikninga um síðustu áramót stemmi við stöðu reikninganna í bókhaldi.
Að sögn Evu Hrannar Jónsdóttur lögmanns hjá LMFÍ, sem hefur yfirumsjón með móttöku yfirlýsinga, hafa nú 76% skilað en fresturinn rann út á miðnætti.
Hvaða afleiðingar hefur það að skila ekki fjárvörsluyfirlýsingu á réttum tíma?
„Lögmannafélaginu ber að leggja til við sýslumann að málflutningsréttindi þeirra lögmanna, sem ekki hafa skilað fjárvörsluyfirlýsingu fyrir 1. október hvert ár, verði felld niður.“
Hafa margir lögmenn misst réttindi á grundvelli þessa síðustu ár?
„Félagið sendir árlega þónokkrar tillögur til sýslumanns vegna þessa. Lang flestir þeirra lögmanna skila fullnægjandi yfirlýsingum áður en til niðurfellingar réttinda kemur en í einstaka tilvikum eru réttindi felld niður. Til þess að fá réttindin útgefin að nýju þurfa lögmenn að hafa gert félaginu fullnægjandi skil á fjárvörsluyfirlýsingu.“
Einfaldara fyrirkomulag
Eva Hrönn segir breytingar hafa verið gerðar framkvæmdinni á síðustu árum; “Við einfölduðum eyðublaðið þannig að nú þurfa lang flestir lögmenn aðeins að undirrita og skila einni síðu. Aðeins þeir sem halda verðbréfaskrá þurfa áfram að undirrita tvisvar. Áður voru yfirlýsingarnar ásamt leiðbeiningum á fjórum blaðsíðum. Nú eru leiðbeiningar á sérstöku skjali sem hægt er að nálgast á www.lmfi.is.“
En hvað með rafræna sendingu, stendur hún til boða?
„Já, með þeim hætti að senda fjárvörslur rafrænt undirritaðar á netfangið fjarvorslur@lmfi.is
Við skoðuðum með hvaða hætti væri best að haga fyrirkomulagi við sendingu fjárvörsluyfirlýsinga og niðurstaðan var sú að gefa lögmönnum kost á að nota rafræna undirritun og senda yfirlýsinguna í tölvupósti. Einnig var skoðað hvort hægt væri að senda lögmönnum skjalið til rafrænnar undirritunar í gegnum þar til gerða þjónustu en það var ekki talið hentug lausn m.t.t. kostnaðar og þeirrar vinnu sem í því fælist fyrir félagið. Þar sem skjalið krefst útfyllingar bæði lögmanns og löggilts endurskoðanda, þó minniháttar sé, er það líka snúið í framkvæmd.“
Er mikið starf að halda utan um fjárvörsluyfirlýsingar?
„Það verður minna mál með hverju ári, bæði þar sem lang flestir skila nú rafrænt og eyðublaðið er orðið einfaldara og því sjaldnar sem yfirlýsingar berast sem eru ófullnægjandi að einhverju leyti.“