Um síðustu áramót var skiptum ólokið í 736 þrotabúum. Eins og sjá má hér fyrir ofan voru 92 lögmenn með fjögur eða fleiri bú opin en þar af var einn með 11 þrotabú í vinnslu.
Í ársbyrjun 2024 gaf dómstólasýslan út nýjar reglur um skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum, nr. 5/2024.
Í þeim er kveðið á um sérstaka skrá yfir skiptastjóra og að birta eigi upplýsingar í byrjun hvers árs um hversu mörgum búum hverjum skiptastjóra hefur verið falið að skipta á árinu á undan, hjá hvaða dómstól og í hversu mörgum búum hver skiptastjóri hefur ekki tilkynnt skiptalok fyrir árslok. Í þessari grein verður rýnt í tölur og farið yfir hvernig til hefur tekist.
Skrá yfir skiptastjóra
Dómstólasýslan heldur skrá um hæfi lögmanna til að gegna skiptastjórn, í hvaða búum þeir hafa fengið skipun og hvenær, í hvaða flokki búin eru og skiptalok. Þá er einnig haldið utan um athugasemdir og kvartanir við framkvæmd skipta í skránni og hvers eðlis þær eru.
Alls voru 446 lögmenn á skránni 2024 en 287 lögmönnum, eða 65% þeirra, var falið að skipta þeim 994 búum sem komu til gjald-þrotaskipta á árinu.
Reglurnar kveða m.a. á um að þegar krafist er gjaldþrotaskipta á búum einstaklinga og lítilla fyrirtækja skuli fjórum búum úthlutað í einu til sama skiptastjórans, ef mögulegt er, en þeir 159 lögmenn sem ekki fengu úthlutað búi á síðasta ári fá vænta
Þrotabú eftir dómstólum
Héraðsdómur Austurlands
14 bú til 7 lögmanna, þar af bjuggu 5 á svæðinu.
6 karlar = 12 bú | 1 kona = 2 bú.
Héraðsdómur Norðurlands eystra
55 búum til 16 lögmanna, þar af bjuggu 14 á svæðinu.
11 karlar = 38 bú | 5 konur = 17 bú.
Héraðsdómur Norðurlands vestra
9 búum til 3 lögmanna sem bjuggu öll á svæðinu.
2 karlar = 6 bú | 1 kona = 3 bú.
Héraðsdómur Reykjavíkur
536 búum til 170 lögmanna sem bjuggu á
höfuðborgarsvæðinu.
118 karlar = 369 bú | 52 konur = 167 bú.
Héraðsdómur Reykjaness
271 búi til 97 lögmanna sem bjuggu á
höfuðborgarsvæðinu.
64 karlar = 179 bú | 33 konur = 92 bú.
Héraðsdómur Vestfjarða
18 búum til 7 lögmanna, enginn bjó á svæðinu.
6 karlar = 17 bú | 1 kona = 1 bú.
Héraðsdómur Vesturlands
24 búum úthlutað til 8 lögmanna þar af bjuggu 3 á svæðinu.
8 karlar = 8 bú
Héraðsdómur Suðurlands
68 búum til 28 lögmanna þar af bjuggu 3 á svæðinu.
26 karlar = 65 bú | 2 konur = 3 bú.
Litlu og stóru búin
Þrotabúum er skipt í tvo flokka; bú einstaklinga og minni lögaðila og svo stærri bú lögaðila sem hafa verið með fleiri en fimm starfs-
menn á launaskrá og yfir 150 milljóna króna árlega veltu. Fjögur þrotabú stærri lögaðila komu til úthlutunar á árinu 2024 og var eingöngu körlum falið að skipta þeim.
Aðeins þeir lögmenn sem hafa réttindi til að flytja mál fyrir Landsrétti, hafa lokið farsællega skiptum á að minnsta kosti tíu þrotabúum án alvarlegra aðfinnsla og hafa ekki farið á svig við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, eiga þess kost að fá úthlutað þrotabúi stærri lögaðila.
Opin bú um áramót
Alls voru 736 þrotabú opin í ársbyrjun 2025 en um 230 þeirra höfðu verið undir skiptum í meira en eitt ár. Skiptastjórar sem ekki hafa tilkynnt skiptalok einu ári eftir út-hlutun í tveimur eða fleiri umfangsmiklum búum, eða í fjórum búum alls, fá ekki úthlutað nýjum búum fyrr en þeir hafa lokið skiptum en undanþága er þó veitt ef skiptastjórar gefa fullnægjandi skýringar á drættinum.
Héraðsdómara er ætlað að horfa til þeirrar reynslu sem fengist hefur af störfum skiptastjóra, þ.m.t. hvort dráttur hafi orðið á lokum skipta sem ekki hafi verið skýrður með fullnægjandi hætti og hvort kvartanir hafi borist yfir störfum skiptastjóra sem ekki er hægt að vísa á bug sem haldlausum. Ef alvarlegar aðfinnslur hafa verið gerðar, sem eru á rökum reistar, fær skiptastjóri ekki úthlutað búi næstu þrjú árin og þarf þá jafnvel að bíða eftir því að röðin komi að honum – sem gæti orðið eftir fimm ár.
Enn sem komið er hafa engar kvartanir borist vegna skiptastjóra sem eru þess eðlis að þær komi í veg fyrir úthlutun. Þó er eitt-hvað um skiptastjóra sem ekki hafa gefið fullnægjandi skýringar vegna dráttar á skiptalokum.
Úthlutun þrotabúa hjá héraðsdómstólum
Áhugavert er að skoða hvernig þrotabúum var úthlutað hjá héraðsdómstólum landsins á síðasta ári. Alls fengu 45 lögmenn úthlutað búum frá fleiri en einum dómstól. Þar af fékk einn úthlutað níu búum frá tveimur dómstólum og annar úthlutað átta búum frá fjórum dómstólum.
Samkvæmt upplýsingum frá dómstóla-sýslunni hefur skráin verið notuð af öllum héraðsdómstólunum en ef einn dómstóll hefur ekki úthlutað fjórum búum til sama skiptastjóra þá fyllir næsti upp í kvótann. Jafnvel þótt allir héraðsdómstólarnir séu að nýta skrána þá eru að minnsta kosti þrír dómstólar landsbyggðar svo til eingöngu að úthluta þrotabúum til lögmanna heima í héraði. Það eru Héraðsdómur Austur-lands, Héraðsdómur Norðurlands eystra og Héraðsdómur Norðurlands vestra en samanlagt úthlutuðu þeir 78 af 995 þrota-búum ársins 2024. Að sama skapi er áhugavert að sjá að Héraðsdómur Vestfjarða úthlutaði engum búum til lögmanna heima í héraði og Héraðsdómur Suðurlands einungis átta af 68 þrotabúum. Dómstólarnir tveir á höfuðborgarsvæðinu virðast nýta skrána og ekki horfa sérstaklega til þess hvar á landinu lögmennirnir búa.

Athygli vekur að á síðasta ári úthlutaði Héraðsdómur Vesturlands þrotabúum til átta karla og engrar konu. Héraðsdómur Suðurlands úthlutaði búum til 26 karla og tveggja kvenna. Héraðsdómur Austurlands úthlutaði búum til sex karla og einnar konu.

Alls fengu 287 lögmenn úthlutað 995 þrotabúum á síðasta ári en um 446 lögmenn eru á skrá dómstólasýslunnar. Eins og sjá má á súluritinu var 19 lögmönnum falið að skipta einu búi en einum lögmanni var falið að skipta níu búum.
Jafnræði
Við skipun skiptastjóra er dómstólum ætlað að gæta jafnræðis milli kynja en konur voru 28% þeirra sem fengu úthlutað þrotabúum árið 2024. Í svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur fv. dómsmálaráðherra, við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur á Alþingi, um jafnrétti milli kynja við skipun skiptastjóra í byrjun nóvember 2024 kom fram að þá voru 443 á skrá dómstólasýslunnar, þar af 316 karlar, eða 71%, og 127 konur eða 29%. Einnig kom fram að á tíu ára tímabili, frá 2. janúar 2014 til 6. nóvember 2024 var 761 lögmaður skipaður skiptastjóri í alls 12.213 þrotabúum. Þar af voru um 30% konur en þess má svo geta að hlutfall kvenna í LMFÍ er 31,7%.
Í lokin
Að loknu þessu fyrsta ári nýrra reglna er ljóst að dómstólasýslan hefur tekið stórt skref í átt að gagnsærri og réttlátari úthlutun þrotabúa. Héraðsdómstólarnir eru nú betur upplýstir við val á skiptastjóra og hafa aðgang að ítarlegri upplýsingum um menntun þeirra og reynslu. Auk þess hefur meira gagnsæi í úthlutunarferlinu skapað aukna ánægju meðal allra aðila, en Lögmannafélag Íslands hafði lengi gert athugasemdir við fyrri úthlutunaraðferðir og einmitt skort á gagnsæi. Þessar breytingar eru mikilvægt skref í átt að sanngirni og jafnrétti í gjaldþrotaskiptum, sem er nauðsynlegt til að tryggja traust og skilvirkni í réttarkerfinu.
Eyrún Ingadótir – aðstoðarritstjóri