Á vegum sálfræðideildar og tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík er í gangi rannsókn um áhrif dómsals í sýndarveruleika á einstaklinga sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Tilgangur rannsóknarinnar er skoða og meta möguleg úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis en umhverfið, sem hefur verið þróað, byggir á dómsal 402 í dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg. Þolendum býðst að prófa sýndarveruleikann og eru viðbrögð þeirra metin með spurningalistum, viðtali og mælingum á streituhormónum.
Hugmyndin kom upphaflega frá þremur nemendum í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík sem útbjuggu dómsal í sýndarveruleika sem lokaverkefni með það í huga að þolendur ofbeldis gætu búið sig undir réttarhöld. Verkefnið hlaut verðskuldaða athygli og varð til þess að nemendurnir stofnuðu fyrirtækið Statum. Í kjölfarið kom sálfræðideild HR að verkefninu og fékk styrk til að rannsaka áhrif sýndarveruleika á þolendur kynferðisofbeldis. Að sögn Rannveigar S. Sigurvinsdóttur, dósents í sálfræði, sem er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar, hefur gengið mjög vel að fá þolendur til þess að taka þátt: „Bjartsýnasta markmið okkar var að fá 60 þátttakendur og við erum að nálgast það. Við leituðum m.a. til Stígamóta og þar var verkefnið kynnt bæði fyrir konum og körlum. Það er sérstaklega ánægjulegt að við höfum fengið fólk frá 20 til 70 ára til að taka þátt í rannsókninni,“ sagði Rannveig.

Rannveig S. Sigurvinsdóttir í herberginu þar sem rannsóknin fer fram en þar eru m.a. leikhúsljós og skynjarar. Rýmið er sérstaklega hannað fyrir sýndarveruleika og þegar gleraugun eru sett upp þá er viðkomandi staddur í dómsal á fjórðu hæð í Héraðsdómi Reykjavíkur sem sést á skjánum. Við hliðina er síðan lítið herbergi þar sem tekið er viðtal við þolendur.
ugmyndin kom upphaflega frá þremur nemendum í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík sem útbjuggu dómsal í sýndarveruleika sem lokaverkefni með það í huga að þolendur ofbeldis gætu búið sig undir réttarhöld. Verkefnið hlaut verðskuldaða athygli og varð til þess að nemendurnir stofnuðu fyrirtækið Statum. Í kjölfarið kom sálfræðideild HR að verkefninu og fékk styrk til að rannsaka áhrif sýndarveruleika á þolendur kynferðisofbeldis. Að sögn Rannveigar S. Sigurvinsdóttur, dósents í sálfræði, sem er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar, hefur gengið mjög vel að fá þolendur til þess að taka þátt: „Bjartsýnasta markmið okkar var að fá 60 þátttakendur og við erum að nálgast það. Við leituðum m.a. til Stígamóta og þar var verkefnið kynnt bæði fyrir konum og körlum. Það er sérstaklega ánægjulegt að við höfum fengið fólk frá 20 til 70 ára til að taka þátt í rannsókninni,“ sagði Rannveig.
Hvenær var rannsóknin sett af stað?
„Við byrjuðum með frumrannsókn árið 2020 og fengum til okkar nokkra þolendur til að reyna gera okkur grein fyrir því hvort við værum með eitthvað í höndunum. Niðurstaðan var að fara í þessa stóru inngripsrannsókn. Upphaflega hugsuðum við verkefnið fyrir þau sem voru að fara með mál fyrir dóm svo að hægt yrði að rannsaka hvort undirbúningur með sýndarveruleika hefði jákvæð áhrif á líðan þeirra. Svo ákváðum við að hafa rannsóknina opnari til að aðrir þolendur, sem höfðu ekki farið með mál fyrir dóm, gætu einnig tekið þátt. Sá hópur hefur rætt um að sýndarveruleikadómur hafi verið svona „closure“ fyrir þeim og haft góð áhrif.“
Hvernig fer rannsóknin fram?
„Þátttakandinn setur upp sýndarveruleikagleraugun og er með skynjara á höndum svo hann sjái handahreyfingarnar. Allt er gert svo að upplifunin verði sem eðlilegust en meira að segja umhverfishljóðin voru tekin upp í dómsalnum.
Við byrjum á því að fara með þátttakandann í hlutlaust umhverfi en svo fer hann í tóman dómsalinn til að róa sig niður. Að því loknu er dómsalurinn full mannaður af tölvukarakterum en það virðist vera nóg því við sjáum þátttakendur oft komast í talsvert mikið uppnám. Þegar réttarhöldin hefjast, og þátttakandi byrjar að tala, þá horfa karakterarnir á hann og það veldur streitu. Réttarhöldin standa í u.þ.b. hálftíma og á meðan mælum við augnhreyfingar, hjartslátt, hjartsláttarbreytileika og svokallaða húðleiðni, sem er streituviðbragð. Á ákveðnum tímapunktum spyrjum við svo þátttakanda hvernig honum líði. Hægt er að velja um tíu útlit á gerendum svo þeir líkist þeim sem brutu á þolandanum en við breytum einnig útliti hans á meðan rannsókninni stendur og erum að skoða hvort það hafi áhrif.“
Hvaðan koma spurningarnar?
„Við fengum spurningar úr raunverulegum dómsmálum og ræddum þær einnig við ráðgjafahóp okkar sem samanstendur af dómara, lögmanni og ákæranda. Við veltum mikið fyrir okkur hvort undirbúningur sem þessi fyrir málflutning gæti eyðilagt málatilbúnað. Niðurstaðan var að svo væri ekki og raunar telja flestir þátttakendur sem eru á leið í dóm undirbúninginn vera valdeflandi. Raunin er sú að þátttakendur gleyma sér í aðstæðunum. Rannsakendur, hins vegar, hlusta og spyrja spurninganna en við vonumst til að gervigreindin komi sterkar inn í þann þátt fljótlega.
Þolendur fara tvisvar sinnum í gegnum skýrslutöku fyrir dómi og virðast vera í minna uppnámi í annað skipti. Við sjáum einnig að það dregur úr kvíða þannig að við fyrstu sýn þá lofar rannsóknin góðu.“
Ertu ánægð með árangurinn fram að þessu?
„Þetta er búið að vera mjög gefandi verkefni. Ég hafði áhyggjur fyrirfram yfir því að við værum að biðja fólk um að gera svo mikið og að það myndi ekki nenna að koma hingað tvisvar sinnum til að rifja upp hugsanlega verstu lífsreynslu lífs síns. Ég held að þátttakendur séu bara svo þakklátir að einhverjir séu að gera eitthvað því að þeir upplifa sig afskipta.
Mér sýnist á fyrstu niðurstöðum að kvíði og ótti gagnvart dómsalnum hafi minnkað. Við mældum einnig almennt kvíða, þunglyndi og áfallastreitu og það er ekki svo að þetta verkefni breyti líðan fólks í öllu lífinu. Þetta er náttúrulega mjög afmarkað inngrip en í þessum tilteknu aðstæðum þá held ég að þetta sé að gera eitthvað gott.“
Sérðu fyrir þér að sýndarveruleikinn verði notaður að
lokinni rannsókn?
„Já, réttargæslumenn gætu nýtt sér þessa tækni til að undirbúa skjólstæðinga sína undir að fara í dómsal. Okkar vinkill er þolendur kynferðisofbeldis og svo mætti nota þetta til undirbúnings í fjölbreyttum málaflokkum. Einnig mætti skoða hvort sýndarveruleikinn gæti gagnast fyrir aðra hópa eins og önnur vitni, sakborninga, lögmenn og ákærendur til að búa sig undir réttarhöld.“
Eyrún Ingadóttir