
Stefán A. Sveinsson Formaður
Gervigreindin er komin til að vera og mun vafalaust skipa aukinn sess í störfum lögmanna og lögfræðinga þegar fram líða stundir. Í gervigreindinni felast tækifæri fyrir lögmenn en líka áskoranir, bæði varðandi það að tileinka sér tæknina en á sama tíma að átta sig á því að gervigreindin, enn sem komið er a.m.k., er ekki óskeikul frekar en mannfólkið. Á vegum laganefndar félagsins er unnið að leiðbeinandi tilmælum um notkun gervigreindar í störfum lögmanna, þ. á m. að gættum siðareglum, og er höfð hliðsjón af vinnu annarra lögmannafélaga um sama efni. Nú í desember stóðu Lögmannafélagið og Lögfræðingafélag Íslands saman að fræðslufundi um gervigreind og lögfræði. Fundurinn var afar vel sóttur og mun færri komust að en vildu. Framsögur voru allar framúrskarandi og líflegar umræður spunnust í kjölfar þeirra. Þeim sem hér heldur á penna var þó aðeins brugðið þegar honum varð ljóst að hann virtist jafnvel sá eini í þéttskipuðum salnum sem hafði aldrei prófað, og raunar lítið heyrt um, ChatGPT sem, samkvæmt því sem fram kom á fundinum, mun vera spjallmenni sem byggir á gervigreind sem hægt er að spyrja spurninga og eiga samtal við í venjulegu ritmáli. Er því ekki úr vegi, innblásinn af nýtilkominni þekkingu, að efna til samtals við spjallmennið í kjölfar fundar og reyna að tileinka sér tæknina. Fer afraksturinn hér:
Ég: Getur þú samið pistil frá formanni félagsins í blaðið?
ChatGPT: Auðvitað, hér er tillaga að pistli frá formanni félagsins í Lögmannablaðinu:
Kæru félagsmenn,
Eins og við höldum áfram að takast á við nýjar áskoranir í réttarfarsheiminum vil ég byrja á að þakka ykkur fyrir ykkar ómetanlega framlag og störf á síðastliðnu ári. Lögfræðin er lifandi fagsvæði sem krefst þess að við aðlagast breytingum og þróun, hvort sem það er í lögum, tækni eða samfélagslegum aðstæðum.
Í þessum pistli vil ég leggja áherslu á mikilvægi samstarfs okkar. Sameining okkar sem lögfræðinga er lykilatriði í að byggja upp sterkt réttarfélag. Við höfum öll eitthvað að færa og sameiginlegar umræður styrkja þekkingu okkar og dýrmæt tengsl í faginu.
Síðasta ár hefur verið viðburðaríkt, með fjölmörgum spennandi verkefnum og viðburðum. Ég hvet alla til að taka þátt í okkar komandi fundum og námskeiðum, og nýta tækifærin til að deila reynslu okkar og læra af hvor öðru. Við þurfum að halda áfram að vera framarlega í þróun réttarfarsins og tryggja að lögfræðingar séu vel að sér í nýjungum.
Verum stolt af okkar verkefnum og berum ábyrgð á því að þróa fag okkar áfram. Ég hlakka til þess að sjá hvern og einn ykkar á komandi viðburðum.
Um leið og ég geri þessi orð spjallmennisins að mínum, með hefðbundnum fyrirvörum, þá vil ég nýta tækifærið fyrir hönd félagsins og óska félagsmönnum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.
Stefán A. Svensson, formaður LMFÍ