Ari Karlsson  Ritstjóri

Pistill þessi hefst á játningu ritstjórans sem hann hefur aldrei sagt öðrum.

Allt frá ellefu ára aldri var ég innst inni harðákveðinn í að læra lögfræði þegar ég yrði stór. Ég þóttist hins vegar vera alls óákveðinn í því hvað ég ætlaði að verða, og nefndi önnur störf eða greinar þegar einhver spurði. Innst inni vissi ég að um leið og stúdentspróf væri í höfn myndi ég innrita mig í lögfræði. Fór sem fór. Lítið er ungs manns gaman.

Líklegast hafði það eitthvað með það að gera að faðir minn og afi voru báðir lögfræðingar. Sem barn var ég stöku sinnum tekinn með þegar karl faðir minn sinnti skyldustörfum sínum; stundum í aftursætinu á lögreglu-Volvo eða að taka skreppitúr út á land á uppboð. Ég tek fram að á níunda áratug síðustu aldar
var minna um skipulögð námskeið og skemmtun fyrir börn en nú er. En ég ólst upp við samtöl þeirra um lögfræðileg efni þótt ég hafi nú skilið minnst af því sem fram fór.

 Ég sá lögfræðistarfið fyrir mér sem heim jakkafataklæddra karla (og einstakra kvenna), með alla veggi stútfulla af lagadoðröntum á skrifstofunum og skrifuðu þar bréf og samninga og tókust á fyrir dómstólunum af mikilli snilld. Þetta var heimur ritvéla og löggilds skjala- og kalkipappírs þar sem lögfræðingar voru með nefið í bókum og blöðum og skjölum.

Um hvað starfið sjálft snerist vissi ég hins vegar lítið fyrr en mér skolaði um aldamótin í Lagadeild Háskóla Íslands. Hvort sem það var af genetískum, uppeldislegum eða öðrum orsökum fannst mér lögfræðin skemmtileg, margbreytileg og hentaði ágætlega upplagi mínu og áhugasviði.

Þegar ég innritaði mig var internetið að slíta barnsskónum og tölvupóstur kominn. Lagasafn Alþingis var nýlega komið á netið og sama átti við um dóma Hæstaréttar frá árinu 1999. Eldri dóma las maður á Lögbergi og ég gat gleymt mér tímunum saman við að lesa þá – ekki bara þá sem voru í námsefninu. Það hefur oft komið sér vel að ráma í dóm sem maður las fyrir löngu í tengslum við verkefni dagsins eða bara til þess að geta slegið um sig á kaffistofunni.

Í upphafi aldarinnar óraði okkur ekki fyrir því hversu mikið upplýsingatæknin myndi breyta öllum vinnuaðstæðum. Nú eru flestar upplýsingar á internetinu, laga- og dómasöfnin farin veg allrar veraldar og öll vinnan smám saman að verða stafræn og pappírslaus.

En nú er það gervigreindin sem líklegast mun umbylta störfum okkar í annað sinn á aldarfjórðungi. Um hana er ekki aðeins fjallað í þessu tölublaði; heldur hefur hún samið spurningar í viðtali í blaðinu og formaðurinn birtir pistil sem gervigreindin skrifaði fyrir hann. Við stöndum sannarlega á tímamótum hvað þetta varðar. Líklegast eigum við, sem erum dálitlir „viturbetrungar“ í okkur, ekki roð í gervigreindina, einkum þegar henni vex ásmegin. Um það hvernig hún breytir störfum okkar í framtíðinni ætla ég ekki að spá frekar í þessum ritstjórapistli, þeim sextánda sem þessi ritstjóri skrifar. Hann er jafnframt sá síðasti þar sem á nýju ári tekur nýr ritstjóri og ritnefnd við keflinu.

Ég vil nota tækifærið og þakka ritnefndinni og þá sérstaklega hinum einstaka aðstoðarritstjóra, Eyrúnu Ingadóttur, fyrir frábærlega gott og skemmtilegt samstarf. Öllum þeim sem lögðu til efni í tölublöðin sextán færi ég þakkir okkar og lesendum öllum fyrir áhugann.

Að því sögðu – og venju samkvæmt – óskar ritnefnd Lögmannablaðsins lesendum blaðsins, nær og fjær, til sjávar og sveita, gleðilegra jóla og farsælar á komandi ári.