Þrískipting ríkisvaldsins, frelsið, fullveldið, ábyrgð á eigin málum, lýðræði, friðsamleg samskipti, verslun við umheiminn og virðing fyrir réttarríkinu og persónulegum mannréttindum eru uppskrift sem virkar.
Á grundvelli þessara grundvallarhugmynda hafa lánsömustu kynslóðir veraldarsögunnar fengið tækifæri til þess að blómstra á Vesturlöndum frá lokum síðari heimsstyrjald-arinnar. Öll sem lesa þennan texta teljast til þessa hóps og flest höfum við stærstan hluta ævi okkar notið allrar þessarar gæfu án þess að leiða hugann sérstaklega að því hversu einstök hún er í sögulegu samhengi. Þessi einstaki blómatími friðar, framfara og velmegunar hefur staðið nógu lengi til þess að auðvelt er að glepjast til þess að trúa því að hann sé sjálfsagður. Okkur hefur meira að segja oft gengið býsna vel að finna honum allt til foráttu; framleitt margvíslega óhamingju, málað skratta á veggi og komist að því að mannskepnan hefur einstakan hæfileika til þess að fá það á heilann að súr ber finnist á stangli þegar við erum umkringd sætindum.
Að vera lögmaður er ekki hefðbundin launavinna. Það er hlutverk.
En samfélag almennrar velmegunar og mannréttinda er ekki söguleg regla heldur einstök undantekning. Áttatíu ár eru um það bil ein mannsævi fyrir þau sem njóta þess láns að lifa svo lengi. Þetta er tíminn sem er liðinn frá því að lýðveldið Ísland fæddist, frá því að bandamenn réðust inn til að bjarga Evrópu undan nasistum og frá því leiðtogar þjóða heims bundust fastmælum um að „bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum styrjaldar, sem tvisvar á lífsleið þessarar kynslóðar hefur valdið mannkyninu ólýsanlegum þjáningum,“ eins og segir í inngangsorðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessar komandi kynslóðir sem þarna er vísað til, það erum við.
Óhætt er að fullyrða að margt sem nú á sér stað í heimsmálunum hefði verið þungbært á að horfa fyrir höfunda þessa texta. Ekki einungis hafa ýmsar þær stofnanir sem ætlað var að þjóna sem kjarni alþjóðlegrar samvinnu villst af leið, heldur virðist sem margir hafi líka gleymt þeim hugmyndafræðilega grundvelli sem friður og samvinna framtíðarinnar átti að vera reistur á, nefnilega að „trú okkar á grundvallarréttindi mannsins, á mannlega reisn og gildi einstaklingsins, á jafnrétti karla og kvenna og jafnræði stórra og smárra ríkja.“ Ég held ég þurfi ekki að teljast vera sérstök bölsýnismanneskja til þess að halda því fram að veruleg hætta sé um þessar mundir á því að þær kynslóðir sem nú fara með völd og áhrif í heiminum séu líklegar til þess að glutra niður þeim bitra lærdómi sem hinir vígmóðu stofnendur Sameinuðu þjóðinni ætluðu sér að gefa okkur í arf. Í staðinn er ástæða til þess að óttast að við höfum verið svo upptekin af því að njóta uppskerunnar að við höfum gleymt því að friði og farsæld síðustu áratuga var sáð í mold sem var rök af blóði, svita og tárum.
Á undanförnum árum höfum við orðið vitni af því að úkraínska þjóðin berst fyrir frelsi sínu og mannvirðingu gegn innrás Rússa. Þótt samúð með málstað Úkraínu sé almenn á Vesturlöndum, þá hefur innanlandsþróun þar víða falið í sér þverrandi virðingu fyrir grundvallargildunum sem stofnendur Sam-einuðu þjóðanna trúðu að væru forsenda frelsis, friðar og farsældar. Því er stundum haldið fram að þetta sé óhjákvæmilegt. Eftir því sem tíminn líður frá síðustu hörmungum þá reynist okkur erfiðara að skilja orsakasamhengin sem til þeirra leiddu. En fyrir okkur, kynslóðirnar sem ætlað var að vernda, eru engar afsakanir við slíku tómlæti. Við sem höfum lagt fyrir okkur að læra lög eigum að vita betur – og við vitum betur. Spurningin er hvort við nennum að hafa fyrir því að standa vörð um þessar hugmyndir og leggja á okkur þau óþægindi sem því kann að fylgja.
Að vera lögmaður er ekki hefðbundin launavinna. Það er hlutverk. Í því felast ekki aðeins skyldur gagnvart daglegum rekstri, skjólstæðingum og úthlutuðum verkefnum. Lögmönnum er líka falin hlutdeild í göfugri samfélagslegri ábyrgð á því að standa vörð um réttarríkið, einstaklingsréttindi og önnur mannréttindi. Lögmenn gegna samfélagslegu hlutverki sem nær langt út fyrir þann fjárhagslega persónulega ábata sem hægt er að hafa af því að sinna starfi sínu af færni og samviskusemi. Það getur því skipt verulegu máli fyrir þróun samfélags hvernig lögmannastéttinni gengur að standa undir þeirri ábyrgð sem henni er treyst fyrir. Og á tímum þegar skilningur fer þverrandi á samhenginu milli grundvallarréttinda ein-staklingsins og farsæld samfélagsins þurfa lögmenn að leggja sérstaka rækt við æðri skyldur sínar, bæði í daglegum viðfangsefnum sínum og sem áhrifavaldar í íslenskri dægurmálaumræðu.
Frelsið tapast aldrei allt í einu
Friðurinn sem við hvílum í er ekki okkar eigin. Hann hvílir í alþjóðlegu samstarfi og sátt um að deilur ríkja séu leystar á grundvelli sameiginlegrar löggjafar og stofnana. Það er á grundvelli þeirra leikreglna sem tilveru-grundvöllur smárra ríkja eins og Íslands hvílir á. Við Íslendingar byggjum frelsi okkar, lífskjör og lífsgæði á að þetta réttarríki þjóða haldi, að alþjóðlega viðurkennd lögsaga og landamæri séu virt. Það eru blákaldir hagsmunir Íslands. Þessi rammi er mikilvægur en hann stendur ekki einn og sér. Það eru fleiri hættur sem blasa við okkur en að þessi grundvallarnálgun um réttarríki þjóða haldi. Við sjáum mörg viðvörunarljós um að fólk beri ekki skynbragð á verðmætin sem einstaklingsréttindi, lýð-ræði, réttarríki og frjáls markaður færir samfélögum. Undirliggjandi er tortryggni gagnvart þessu kerfi; að það sé afurð eða tæki valda- og áhrifamanna til að réttlæta kerfi sem þau njóta góðs af en skili litlu fyrir hinn „venjulega“ mann. Með því að spila á tilfinningar og óöryggi fólks gengur sums staðar vel að halda þessu fram. Lögmannastétt í hverju ríki er hluti af brjóstvörn frjálslynds lýðræðis og þarf ætíð að taka þá skyldu sína alvarlega og enn meira nú þegar að því er vegið.
Við höfum þá verðmætu stöðu að verja að á Íslandi ber fólk meira traust til grundvallarstofnana samfélagsins en víða annars staðar. Í þessu felast gríðarleg verðmæti sem allir ábyrgir stjórnmálamenn og áhrifafólk á að standa saman um að varð-veita. Þess vegna þurfum við sem tölum fyrir minni ríkisumsvifum að gæta að þessu grundvallaratriði. Og þau sem bera ábyrgð á opinberum rekstri þurfa að taka sínar skyldur alvarlega; að gæta þess að framganga þeirra grafi ekki undan því trausti sem þeim er sýnt.
Samfélög sem skilja samhengið á milli raunverulegs frelsis og að það sé þess virði að verja þessi grundvallargildi eru sterkari og með meiri viðnámsþrótt en samfélög sem hafa misst þá trú og verða værukær.
Land hinna frjálsu?
Á árinu 2026 munu Bandaríkin halda upp á 250 ára sjálfstæði. Það er lýðræðisríkið sem skrifaði með fyrstu orðum sjálfstæðis-yfirlýsingar sinnar að allir menn séu skapaðir jafnir. Sú stjórnarskrá Bandaríkjanna sem skrifuð var í kjölfarið var uppfull af margvís-legum aðferðum til þess að tryggja að ólíkir þræðir ríkisvaldsins hefðu fullkomið sjálf-stæði frá hver öðrum, hefðu getu til þess að veita hver öðrum aðhald og gætu gripið í taumana ef í óefni stefndi, því að þótt þeir sem stofnuðu Bandaríkin hafi ekki verið sammála um alla hluti, langt í frá, þá voru þeir sammála um eitt, þeir vildu ekki hafa kóng.
Núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum eru ekki málsvarar raunverulegs frelsis. Þau eru að leika sér að eldinum og eru þegar farin að brenna niður mikilvæga þætti af þeirri heimsmynd sem er grundvöllur friðar og frelsis fyrir okkur, fyrir Evrópu og fyrir Bandaríkin sjálf.
Það er nýr veruleiki fyrir okkur að horfa upp á núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum, ríkis sem hefur verið leiðandi í hinum frjálsa heimi, taka afgerandi skref sem vega að þessum grundvallargildum frelsis, heima og að heiman. Það að núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum ætli sér að velja sér nýtt hlutverk til að gegna í heiminum er bæði hryggilegt og hættulegt. Ein birtingarmynd árásarinnar á frjálslynt lýðræði eru tilburðir núverandi valdhafa í þá átt að kúga sjálfstætt starfandi lögmenn til hlýðni. Þar reynir á hvort lögmannastéttin hafi þann þroska, sjálfsvirðingu og hugrekki sem þarf til þess að standa vörð um hið göfuga hlutverk sem hún hefur gagnvart samfélagsskipaninni. Því miður eru of mörg dæmi um að virtar lögmannsstofur þar í landi séu svo hræddar við óþægindi að þær svíkist undan þeirri skyldu. Eins og fram kemur í riti bandaríska heimspekingsins Timothy Snyder, Um harðstjórn (On Tyranny), þá hafa sjálfstæðar fagstéttir á borð við lögmenn, endurskoðendur og lækna sérstaka skyldu til þess að halda tryggð við sínar eigin siðareglur þegar stjórnvöld sýna tilburði í þá átt að grafa undan undirstöðum samfélagsgerðarinnar.
Okkar heimavinna
Það er margt í þróun alþjóðamála sem við sem samfélag höfum ekki stjórn á eða vald yfir. Það er margt sem getur gerst sem hefur bein áhrif á okkur hér, jákvæð og neikvæð. Sú þróun sem varð eftir síðari heimsstyrjöld um að ríki séu nokkuð jöfn fyrir alþjóðakerfinu, óháð stærð og styrk, hefur haft gríðarleg jákvæð áhrif á Ísland. Við Íslendingar hefðum getað spilað illa þrátt fyrir það en höfum spilað vel úr okkar stöðu. Þetta kerfi hefur gert okkur kleift að verða sterkara, frjálsara, ríkara og öflugra sjálfstætt Ísland. Það mun skipta raunverulegu máli að við þekkjum gildismat okkar, fyrir hvað við stöndum, hvað skiptir okkur mestu máli sem samfélag og í samfélagi þjóða.
Ísland hefur staðið vörð um lýðræði, mannréttindi og alþjóðalög með virkri þátttöku í alþjóðasamstarfi í samvinnu við önnur lýðræðisríki sem er mikilvægur liður í því að tryggja öryggi og fullveldi Íslands á óvissutímum. Við tökum líka þátt og erum háð alþjóðlegu viðskiptakerfi sem hefur gert okkur kleift að selja vörur og þjónustu til útlanda. Fyrir útflutningsdrifna smáþjóð er þróunin sem við horfum upp á alvarleg.
Ísland býr að því að hafa markað sér gott orðspor alþjóðlega. Það skiptir líka máli að Ísland er vinsælt ferðamannaland, að mörgum þyki vænt um íslenska menningu og sögu. Orðspor okkar fyrir að vera réttlátt og frjálslynt samfélag, þar á meðal gagnvart minnihlutahópum, er heldur ekki bara verðmætt í sjálfu sér – það á þátt í því að styrkja stöðu okkar sem sjálfstætt ríki í augum umheimsins.
Tími þægindanna er liðinn og við höfum öll hlutverki að gegna.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir – alþingismaður