Síðastliðinn föstudag stóðu Lögfræðingafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands fyrir jólahádegisverði þar sem rætt var um störf íslenskra lögfræðinga á erlendri grundu. Þrír lögfræðingar sögðu frá störfum sínum í Danmörku, Bretlandi og Noregi og fjölluðu m.a. um hvernig íslenskt lögfræðipróf hefur nýst í þessum löndum. Áður en þeir fengu sviðið kynnti Ragnar Jónasson lögfræðingur og rithöfundur nýjustu bók sína og Katrínar Jakobsdóttur.

Guðrún Olsen forstöðumaður stefnu og umbreytinga hjá Icelandair fjallaði um veru sína í Danmörku en þar tók hún meistaragráðu í lögfræði árið 2015. Hún aflaði sér síðan lögmannsréttinda á Íslandi og í Danmörku og talaði um muninn á þeim tveimur námskeiðum sem hún sótti til að fá réttindin. Guðrún starfaði sem lögmaður hjá NJORD Law Firm og var meðal annars í samkeppnisrétti og málflutningi. Hún ræddi m.a. um muninn á málflutningi í Danmörku og Íslandi en þegar hún hætti hjá lögmannsstofunni fyrir fimm árum síðan voru öll samskipti við dómstól og gagnaðila löngu orðin rafræn. Að því loknu starfaði Guðrún sem stjórnendaráðgjafi og verkefnastjóri hjá Boston Consulting Group í Kaupmannahöfn uns hún kom aftur heim til Íslands í haust.

r. Hafsteinn Dan Kristjánsson lagaprófessor við HR hefur frá 2019 kennt réttarheimspeki og Evrópurétt við Oxford-háskóla, þ.á m. við átta college í grunnnáminu sem  og í meistaranáminu. Áður var Hafsteinn Dan aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis og lektor við HÍ.

Hafsteinn Dan rakti að áherslan í kennslunni úti er á að nemendur taki sjálfstæða og rökstudda afstöðu til álitaefna, tileinki sér gagnrýna hugsun og kafi dýpra í álitaefnin. Nemendur lesa fjölbreytt lesefni, þar sem birtist ólík sýn á álitaefnin, og skrifa studdar röksemdafærsluritgerðir fyrir tíma þar sem þau rökstyðja eigin nálgun, byggða á námsefninu, á álitaefni. Kennsla í grunnnámi fer mikið fram í gegnum málstofur og „tutorials“ þar sem þau hitta kennarann í litlum hóp og velta fyrir sér álitaefnunum og röksemdunum fram og til baka. Auk kennslu þurfa kennarar að taka þátt í að velja nemendur inn, sem Hafsteinn Dan hefur gert, en í því felst m.a. að fara yfir röksemdafærsluritgerðir og sitja viðtöl við nemendur þar sem þau m.a. rökræða um dóm sem þau fá fyrir viðtalið.

Hafsteinn Dan dró saman nálgunina á kennslu og fræði í C-in þrjú: close reading, clear thinking, and careful writing.

Margrét Gunnarsdóttir lögmaður á norsku lögmannstofunni Arntzen Grette í Osló er fyrsti Íslendingurinn sem fékk útgefin norsk lögmannsréttindi á grundvelli íslenskra lögmannsréttinda árið 2006.

Margrét fór fyrst til Oslóar í framhaldsnáms en svo til Löwen í Belgíu og tók þar LL.M gráðu í Evrópurétti. Hún fann verulega fyrir því hvað samstúdentar hennar voru betur undirbúnir undir námið, bæði höfðu þau numið Evrópurétt í grunnnáminu, og þekktu því helstu dómana, og voru einnig vanari því að rökræða lögfræði.

Margrét vann hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og síðan hjá EFTA dómstólnum en svo lá leiðin aftur til Noregs. Þá stóð henni til boða að nota starfsheitið „héraðsdómslögmaður“ á íslensku en hún sá það ekki vera möguleika enda enginn að skilja þann titil. Önnur leið var að fá viðurkennd íslensk lögmannsréttindi með því að m.a. sýna fram á að lögfræðinámið á Íslandi var mjög líkt og í Noregi og það tókst.

Mikið er breytt síðan þá í Noregi þar sem Margrét er að mæta reglulega lögmönnum sem eru með lögfræðipróf frá öðrum EES-löndum. „Ég er sem sagt lifandi dæmi um það að reglur EES-samningsins um frjálst flæði fólks eru að virka mjög vel,“ sagði hún í lokin.

Stefán A. Svensson lögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands stjórnaði fundi.

Í byrjun fundar kynnti Ragnar Jónasson lögfræðingur og rithöfundur bók þeirra Katrínar Jakobsdóttur Franski spítalinn.