Í febrúar síðastliðnum hélt Lögfræðingafélag Íslands hádegisverðarfund þar sem fjögur fyrirtæki, sem bjóða lögfræðingum upp á sérsniðnar gervigreindarlausnir til að leita og vinna úr lögfræðilegum gögnum, fengu tækifæri til að kynna sig. María Rún Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá ríkislögreglustjóra og varaformaður LÍ, stjórnaði fundi en færri komust að en vildu sem sýnir þann gríðarlega áhuga sem lögfræðingar hafa á þessari nýju tækni. Alls fjögur fyrirtæki kynntu lausnir sínar á fundinum en fljótlega eftir hann kynnti fimmta fyrirtækið sig til leiks.

Fordæmi

Róbert Helgason frumkvöðull bjó upp-haflega til Fordæmi fyrir sjálfan sig til að leita að fordæmum í dómum og úrskurðum og setti svo á netið: „Fordæmi.is sameinar íslensk og evrópsk lagaheimildasöfn í öflugu málsgreiningar- og lagaheimildarviðmóti sem er knúið af nýjustu gervigreindartækni. Það er mín hugsjón að einföld lagaheimildarleit verði ávallt ókeypis og nafnlaus en svo veiti ég áskrifendum mun ítarlegra viðmót og ferla til að greina mál á skilvirkan hátt. Greiningarmöguleikar Fordæmis eru í stöðugri þróun með nýjustu tækni sem völ er á hverju sinni,“ sagði Róbert.

Proáskriftin bætir við fjölda möguleika og viðmóti sem gerir notendum kleift að safna saman gögnum máls með skýrum hætti og framkvæma markvissar leitir, spjöll og greiningar. Róbert þakkaði fyrir frábærar móttökur frá opnun og yfir 4.000 leitarbeiðnir á skömmum tíma. Hann hvatti lögmenn til að fylgjast vel með enda sé þróunin afar hröð og nýir eiginleikar og einstakar heimildir verði í boði innan skamms.

Lagaviti

Jóhannes Eiríksson lögfræðingur, annar stofnenda, sagði hóp sérfræðinga vera að vinna að þróun Lagavita; þrjá reynda lögfræðinga, þ. á m. Eirík Tómasson, fyrrum hæstaréttardómara og lagaprófessor, og fjóra forritara með reynslu af gervigreind, gagnavísindum og öryggismálum: „Við leggjum áherslu á að lausn Lagavita er hönnuð af lögfræðingum fyrir lögfræðinga. Markmiðið er að skila lögfræðilega tækri röksemdafærslu í formi vinnuskjals sem not-andinn óskar eftir og stórauka þannig skilvirkni í lögfræðistörfum“, sagði Jóhannes.

Áherslur Lagavita eru gæði, öryggi og notendaupplifun. Lagaviti greinir lögfræðileg álitaefni, tekur saman viðeigandi réttarheimildir og beitir lögfræðilegri aðferðafræði. Gæði úrlausna verða slík að þau munu leiða til verulegrar skilvirkni í störfum lögfræðinga. Þá mun Lagaviti uppfylla allar þær öryggiskröfur sem þörf er á til að tryggja lögfræðingum örugga notkun lausnarinnar og tekur mið af því verklagi og vinnuumhverfi sem lögfræðingar eru vanir svo að lausnin nýtist sem best í störfum þeirra: „Lykilatriðið er að lögfræðingar geti treyst lögfræðilegum gæðum og öryggi þeirra gervigreindarhugbúnaðarlausna sem þeim standa til boða. Þar skiptir sköpum að reynslumikið lögfræðiteymi okkar fer gaumgæfilega yfir og metur úrlausnir Lagavita og sér til þess að nauðsynlegar breytingar séu gerðar tæknilega til að tryggja framúrskarandi lögfræðileg gæði og öryggi.

Mikilvægt er að stíga varlega til jarðar og vanda mjög til verka í þessari vinnu, til að tryggja að lausnin skili lögfræðingum raunverulegum vinnusparnaði á öruggan hátt“, sagði Jóhannes og hvatti fundarmenn til að setja sig í samband ef þau vildu fá dýpri kynningu á öflugum notkunarmöguleikum Lagavita.

Lögmennið

Einar Björgvin Sigurbergsson, framkvæmdastjóri, kynnti Lögmennið sem er gervigreindarlausn Fons Juris sem nýtir gagnasafn fyrirtækisins til að svara spurningum notenda. Lögmennið getur meðal annars reifað dóma, úrskurði og tímaritsgreinar og svarað spurningum byggðum á efni þeirra.

Einar lagði áherslu á mikilvægi þess að spyrja gervigreindina réttu spurninganna og byggja niðurstöður á traustum heimildum. „Lögmenni Fons Juris hefur aðgang að stærsta lögfræðilega gagnasafni Íslands og nýtir það til að svara spurningum,“ sagði hann. Hann tók fram að geta Lögmennisins til að aðstoða notendur mun aukast jafnt og þétt á árinu 2025, og á næstunni mun það geta svarað spurningum úr eigin skjölum/gögnum notenda, aðstoðað við gerð lögfræðilegs texta, framkvæmt margháttaða vinnslu og margt fleira.

Einar sagði gervigreindina vera dýrmætt tæki við lausn lögfræðilegra álitaefna en hvatti þó notendur til að treysta einnig á eigin hæfni: „Það getur tekið mörg ár að leysa ágreining og því er nauðsynlegt að allt sé rétt og að gervigreindin vísi til áreiðanlegra heimilda. Leit í fjölbreyttum gagnasöfnum og hvernig gervigreindin er spurð skiptir lykilmáli,“ sagði hann.

Ekki er rukkað sérstaklega fyrir Lögmennið sem er hluti af því sem áskrifendum býðst hjá Fons Juris.

Jónsbók

Thelma Christel Kristjánsdóttir lögfræðingur, og ein af fjórum forsvarsmönnum Jónsbókar, sagði teymið á bak við Jónsbók samanstanda af sérfræðingum með reynslu í lögfræði og tækni. Jónsbók er með mörg hundruð notendur þ. á m. ráðuneyti, opinberar stofnanir, fjármálafyrirtæki og stórar og smáar lögmannsstofur. Tækni Jónsbókar byggir á þekkingarneti á milli íslenskra og evrópskra réttarheimilda en það er hægt að nýta lausnina til að fá skjót og hnitmiðuð svör við laga-legum álitamálum og skrifa tölvupósta og annan texta. Þá er hægt að hlaða upp skjölum s.s. Word, pdf og skönnuðum skjölum. Þá býður kerfið einnig upp á réttarheimildaleit í formi notkunareiginleika sem heitir „yfirlit réttarheimilda“ og getur útbúið fyrstu drög að skjölum með notkunareiginleikanum að-stoðarmanninum.

Jónsbók hefur meðal annars verið látin taka þrjú próf í lögfræði við eina lagadeildina og „fengið“ í einkunnir 9,0 og 9,5 á meðan meðaleinkunn nemenda var undir 6,0.

Enn eitt fyrirtækið

Auk fjögurra framangreindra fyrirtækja sem bjóða lögfræðingum landsins upp á gervigreindarlausn hefur nú fimmta fyrirtækið bæst við: Denovo, en á heimasíðu segir að fyrirtækið byggi á þeirri hugmyndafræði að lögfræðigögn ættu að vera opin og aðgengileg öllum. Fyrirtækið ætli að auðvelda aðgengi að lögfræðigögnum og valdefla notendur til að auka þekkingu sína á réttarkerfi Íslands. Það er því úr nógu að velja fyrir lögmenn landsins þessa dagana.