Næstkomandi föstudag, 10. október, verður Lagadagurinn haldinn í 17. sinn en frá upphafi hafa Lögmannafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og Dómarafélag Íslands skipulagt daginn í sameiningu sem hefur verið stærsti viðburður lögfræðingasamfélagsins síðan þá.
Það var 9. maí 2008 sem Lagadagurinn var haldinn í fyrsta sinn og voru þar með sameinuð vorþing sem LMFÍ og DÍ héldu og haustþing LÍ. Fyrirmyndin kom frá Finnlandi en Helgi Jóhannesson, formaður LMFÍ 2005-2008 og Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri félagsins, höfðu sótt slíkan viðburð í boði finnska lögmannafélagsins.
Fyrsti Lagadagurinn hófst með hádegisverði og sameiginlegri málstofu sem fjallaði um aðferðir og tæki einkamarkaðarins en að henni lokinni var hægt að velja um fjórar málstofur. Um kvöldið var vel heppnuð hátíð en alls sóttu 220 manns þennan fyrsta Lagadag.
Aðeins einu sinni hefur Lagadagurinn verði felldur niður og það var í miðri kóvid-bylgju árið 2020 en áður hafði deginum verið frestað þrisvar sinnum. Af sömu ástæðu var farið að bjóða upp á Lagadaginn í fjarfundi árið 2021 en þá var kvölddagskránni sleppt.
Í ár taka um 400 manns þátt í einhverjum af viðburðum Lagadagsins sem haldinn verður á Hilton Reykjavík Nordica.
Fyrir hádegi verður aðalmálstofa sem fjallar um lýðræði á tímamótum og eftir hádegi verður hægt að velja á milli þriggja málstofa, annars vegar frá kl. 13.00-14.30 og hins vegar frá kl. 15.00-16.00. Að venju verður hátíð að kvöldi Lagadags þar sem lögfræðingar landsins skemmta sér saman. Sjá nánar hér: Lagadagur 2025
Það er gaman að geta þess að Björn Bjarnason var dómsmálaráðherra þegar Lagadagurinn var haldinn í fyrsta sinn og opnaði málþingið með eftirfarandi erindi. Hann er nú meðal þátttakenda málstofu um hvort þrítugur EES samningur sé nægjanlega sveigjanlegur í síbreytilegum heimi.
Liðnir lagadagar








