Í byrjun apríl var haldið málþing til heiðurs Ragnari Aðalsteinssyni níræðum í Hátíðar-sal aðalbyggingar Háskóla Íslands. Ragnar er heiðursfélagi í Lögmannafélagi Íslands, fyrrum formaður þess á árunum 1992-1995, og er jafnframt sá lögmaður sem hefur starfað lengst á Íslandi, eða í 63 ár.

Það var Mannréttindastofnun Háskóla Íslands sem stóð fyrir málþinginu í samstarfi við Rétt – Aðalsteinsson & Partners. Alls voru flutt fjögur ólík erindi sem þó áttu það sameiginlegt að snerta á áhrifum Ragnars á þróun lögfræðinnar á Íslandi.
Auður Jónsdóttir rithöfundur var fyrst á svið og sagði hún Ragnar vera listamann lögfræðinnar og skáld sannleikans. Ragnar hefði á sínum ferli gætt réttinda borgaranna gagnvart ríkisvaldinu og verið þannig umbreytandi afl. Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari sagði Ragnar hafa verið þjón réttarins. Ragnar hafi jafnframt, ásamt fleirum, barist ötullega fyrir réttindum sem þættu sjálfsögð í dag. Brynhildur Flóvenz dósent emerita við Lagadeild HÍ ræddi um áhrif Ragnars á viðhorf til mannréttinda og réttlætis og í síðasta erindinu velti Ragnar Tómas Árnason aðjúnkt við Lagadeild HÍ og fyrrverandi lögmaður vöngum um eðli og tilgang lögmennskunnar og áhrifum Ragnars á þróun íslensks réttar.
Í lok málþingsins tók Ragnar sjálfur við hljóð-nemanum og ávarpaði salinn. Fyrir utan þakkir sem hann vildi koma á framfæri ljáði Ragnar máls á framgangi fasisma bæði í austri og vestri í ræðu sinni. Ragnar sagðist óttast framgang fasismans þar sem öfgahreyfingar geysast fram í Evrópu með stuðningi úr vestri. Í Bandaríkjunum væri nú verið að hrekja dómara úr starfi og kúga lögmenn til að hlýða framkvæmdavaldinu. Ragnar sagði fasismann leynast hvarvetna og það væri okkar hlutverk að berjast gegn honum. Ójöfnuður hefði aukist hröðum skrefum og þegar auðvaldið hefði hrifsað völdin virkaði lýðræðið ekki. Þetta væri að gerast aðeins 80 árum eftir síðari heimsstyrjöld. Það var sannarlega kraftmikið ákall til okkar allra í ræðu Ragnars.
Málþingið var einkar vel sótt af bæði fjölskyldu og öðru samferðafólki Ragnars. Það var raunar að einhverju leyti eins og ættarmót lögfræðinnar, þar sem margar kynslóðir dómara, lögmanna, fræðimanna og annarra lögfræðinga sátu saman í salnum. Eftir málþingið gæddu gestir sér á veitingum undir ljúfu undirspili Þóris Baldurssonar píanista og tónlistarmanns.
Eyrún Ingadóttir – aðstoðarritstjóri
