Lögmannafélag Íslands hefur í bréfi til Landsréttar gert athugasemdir við nýjar viðmiðunarreglur dómstólsins um fjarverutilkynningar málflytjenda og röðun mála á dagskrá og fer fram á endurskoðun þeirra.
Í reglunum kemur meðal annars fram að málflytjendur skuli tilkynna fjarveru vegna haustannar fyrir 1. júní og vegna vorannar fyrir 1. nóvember ár hvert og megi tilkynningarnar að hámarki taka til sjö virkra daga á hvoru tímabili. Hafi málflytjandi ekki tilkynnt um fjarveru verði tímasetningu aðalmeðferðar ekki breytt nema um sé að ræða skyndileg og lögmæt forföll í skilningi réttarfarslaga. Enn fremur er í reglunum ákvæði um að forðast skuli að raða málum á dagskrá Landsréttar þannig að málflytjandi sé í aðalmeðferð tvo daga í röð en félagið telur mikilvægt að ekki sé gert ráð fyrir því að lögmaður flytji fleiri en eitt mál sömu vikuna í Landsrétti.
Í bréfi Lögmannafélagsins er m.a. bent á að félagið hafi skilning á því að vissrar festu verði að gæta við niðurröðun mála en bendir á að ef dagskrá Landsréttar yrði birt með umtalsvert meiri fyrirvara en nú er, s.s. fyrir 1. júní vegna haustsins og fyrir 1. september vegna vorsins, mætti yfirstíga mörg þeirra vandamála sem hinar nýju reglur kunni að leiða af sér. Þá þurfi að taka meira tillit til starfsdaga, vetrarfría og annarra skerðinga í grunn- og leikskólum landsins enda séu reglurnar til þess fallnar að koma niður á fjölskylduábyrgð lögmanna og skortur á sveigjanleika sé ekki í samræmi við almenna þróun á vinnumarkaði og jafnréttissjónarmið.