Lögmannablað í 30 ár
Árið 1995 kom Lögmannablaðið út í fyrsta sinn og hefur útgáfa verið óslitin síðan. Á 30 ára afmæli blaðsins heilsar ný ritstjórn með efnismeira blaði, nýju útliti og stafrænni vegferð. Samhliða útgáfu þessa blaðs mun birtast útgáfa á nýjum vef, www.logmannabladid.is. Um er að ræða lifandi vef sem ætlunin er að uppfæra reglulega. Vefurinn verður tengdur helstu samfélagsmiðlum og mun innihalda fréttir af starfsemi félagsins og af hugðarefnum félagsfólks, hraðar og með meiri útbreiðslu en áður.
Í ritstjórnarpistli fyrsta Lögmannablaðsins eftir Martein Másson, framkvæmdastjóra LMFÍ og ritstjóra, var lögð áhersla á að virkja félagsmenn til að skrifa í blaðið. Taldi hann að fjölmargir lögmenn lumuðu á áhugaverðu efni, sem fengur væri í að sjá á síðum blaðsins. Undir þetta má taka heilshugar 30 árum síðar. Félagsmenn eru hvattir til þess að stinga niður penna og snúa sér til ritstjórnar til birtingar á efni í blaðinu og á vefnum. Má ætla að af nægu sé að taka enda starfið kvikt, stéttin stækkandi og öll samfélagsgerðin undir.
Í þessu fyrsta blaði nýrrar ritstjórnar má finna fjölbreytt efni af vettvangi félagsins og frá starfandi lögmönnum og lögfræðingum, sem hafa einnig helgað sig öðrum störfum. Meðal þess sem birtist í blaðinu er grein eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur alþingismann, fyrrverandi utanríkisráðherra og lögfræðing. Hún bendir á að það að vera lögmaður sé ekki hefðbundin launavinna heldur hlutverk, sem í felast ekki aðeins skyldur gagnvart daglegum rekstri, skjólstæðingum og úthlutuðum verkefnum, heldur hlutdeild í göfugri samfélagslegri ábyrgð gagnvart á því að standa vörð um réttarríki, einstaklingsréttindi og önnur mannréttindi. Verður ekki deilt um mikilvægi þess og hafa t.a.m. lögmannafélög víða um heim sent frá sér yfirlýsingar nýverið til að standa vörð um réttarríkið, sjálfstæði dómstóla og sjálfstæði lögmanna.
Í LMFÍ eru ríflega 1.000 félagsmenn sem sinna ólíkum störfum, þ.m.t. innan fyrirtækja og stofnana, og eru innanhússlögmenn nú 25% félagsmanna. Ritstjórn endurspeglar það hlutfall nú með ágætum. Fullyrða má að sú aukna breidd í ritstjórn sé til þess fallin að auka fjölbreytni í efnistökum. Dreifing blaðsins í prentútgáfu nær til lögmannsstofa, fyrirtækja, stofnana, dómstóla og háskóla. Lögmannablaðið mun hér eftir koma út í prentútgáfu tvisvar á ári, á öðrum og fjórða ársfjórðungi, í stað fjögurra útgáfudaga. Það er von ritstjórnar að þær breytingar sem hér eru kynntar muni reynast vel fyrir blaðið, stéttina og jafnvel samfélagið allt. ♦
Unnar Lilju Hermannsdóttur – Ritstjóri