„Lögmennska krefst mikillar viðveru. Eini tíminn sem lögmenn komast frá skrifstofunni er þegar dómstólar loka vegna sumarleyfa.“ Er þessi fullyrðing mýta; gamaldags viðhorf frá þeim tíma sem helstu hjálpartæki lögmanna voru ritvélar og kalkipappír? Eitt af því sem breyttist með kóvid var að fartölvur urðu algengari   með sínum innbyggðu myndavélum og míkrafónum og skyndilega voru fjarfundir á hvers manns færi. Lögmannablaðinu lék forvitni á að vita hvort lögmennska henti til fjarvinnu og fékk því sérfræðinga í lið með sér; lögmann sem stundar starf sitt erlendis, lögmann sem er nýkominn heim eftir rúmlega tveggja ára fjarvinnu og einn sem stundaði fjarvinnu í byrjun aldar. 

Sigurður Ágústsson leigir skrifstofurými í Stokkhólmi.

„Hef ekki þurft að hafna verkefnum“

Sigurður Ágústsson lögmaður hjá Lex býr í  Svíþjóð og hóf fjarvinnu þaðan árið 2024, eftir að hann lauk námi við Stokkhólmsháskóla. Helstu áskoranirnar eru félagslegi þátturinn og hann mælir með því að leigja aðstöðu í svokölluðu „co-working“ rými.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að starfa sem lögmaður á Íslandi en búa erlendis?

Ég hóf LLM nám við Stokkhólmsháskóla haustið 2023 og á sama tíma fékk konan mín, sem starfar hjá Embla Medical, tækifæri í starfi hjá norrænu samstæðu fyrirtækisins, sem er einmitt með skrifstofur í Stokkhólmi. Eftir námið ákváðum við að staldra aðeins lengur við í Svíþjóð svo ég vinn þaðan.

Hverjar eru helstu áskoranirnar við þetta fyrirkomulag?

Fjarvinnan hefur gengið mjög vel að mínu mati. Helsta áskorunin er sú að missa úr félagslega þættinum á mínum vinnustað sem hefur alltaf verið góður. Maður hefur t.d. ekki kaffistofuna til að hitta samstarfsfólk og erfiðara er að grípa mann í tilfallandi verkefni eða álitsgjöf. Það getur einnig verið áskorun að hitta ekki viðskiptavini og gagnaðila í eigin persónu en í langflestum tilfellum ganga öll samskipti vel í gegnum Teams eða síma.

Hvaða kostir fylgja því?

Fjarvinna hefur hentað mér ágætlega í gegnum tíðina, t.d. á árunum 2020 til 2022 þegar kóvid reið yfir. Eðli málsins samkvæmt er meiri vinnufriður og dagurinn nýtist þannig almennt betur. Þá kunnum við mjög vel við okkur í Stokkhólmi og erum þakklát fyrir tækifærið að búa erlendis með þessum hætti og fá nýtt sjónarhorn á hlutina.

Hvaða áhrif hefur það haft á starf þitt?

Áður en við fluttum út var ég mikið í mál-flutningi en er minna í slíkum verkefnum núna sem er helsta breytingin. Ég sinni að öðru leyti sams konar verkefnum og fyrir flutninga og hef ekki þurft að hafna verkefnum.

Hvaða aðferðir og tækni nýtir þú til að tryggja skilvirkt samband við viðskiptavini og samstarfsfólk á Íslandi?

Fyrst og fremst nýti ég símann, tölvupóst og Teams. Það hefur gengið vel og upplifunin er sú að langflestir viðskiptavinir séu mjög vanir því fyrirkomulagi. Í rauninni eru svipaðar aðferðir sem gilda bæði erlendis og heima, s.s. að tileinka sér að bregðast hratt við fyrirspurnum og verkefnum.

Þarftu að koma til Íslands vegna vinnunnar?

Frá síðasta sumri hef ég einu sinni farið til Íslands vegna málflutnings. Við höfum þó heimsótt Ísland reglulega á meðan við höfum dvalið hér og þá hefur verið endurnærandi að mæta á skrifstofuna.

Hvaða ráð myndir þú gefa öðrum lögmönnum sem íhuga að fara sömu leið?

Ég myndi mæla með að leigja aðstöðu í „co-working“ skrifstofurými sem hjálpar til félagslega. Ef maður er á Norðurlöndunum er þetta einnig gott tækifæri til að læra viðkomandi tungumál betur. Ég mæli einnig með að reyna að kynnast lögfræðisamfélaginu á viðkomandi stað, s.s. að mæta á ráðstefnur og aðra viðburði.

Eyrún Ingadóttir – aðstoðarritstjóri