„Lögmennska krefst mikillar viðveru. Eini tíminn sem lögmenn komast frá skrifstofunni er þegar dómstólar loka vegna sumarleyfa.“ Er þessi fullyrðing mýta; gamaldags viðhorf frá þeim tíma sem helstu hjálpartæki lögmanna voru ritvélar og kalkipappír? Eitt af því sem breyttist með kóvid var að fartölvur urðu algengari með sínum innbyggðu myndavélum og míkrafónum og skyndilega voru fjarfundir á hvers manns færi. Lögmannablaðinu lék forvitni á að vita hvort lögmennska henti til fjarvinnu og fékk því sérfræðinga í lið með sér; lögmann sem stundar starf sitt erlendis, lögmann sem er nýkominn heim eftir rúmlega tveggja ára fjarvinnu og einn sem stundaði fjarvinnu í byrjun aldar.

Einar Baldvin Árnason haustið 2009 á NFL leik hjá Green Bay Packers
„En fyrst þú ert vaknaður …“
Einar Baldvin Árnason lögmaður hjá BBA//Fjeldco bjó í Bandaríkjunum og var í fjar-vinnu frá lögmannsstofunni árin 2005-2010. Í baksýnisspeglinum sér hann kosti við tímamismuninn þótt næturhringingar hefðu truflað svefninn.
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að starfa sem lögmaður á Íslandi en búa erlendis?
Eiginkona mín var í framhaldsnámi í læknis-fræði og þess vegna fluttum við út. Þetta gekk allt saman mjög vel og ég tók samhliða þessu líka LL.M gráðu í Bandaríkjunum.
Hvernig nýttir þú tæknina til að halda sambandi við viðskiptavini og samstarfsfólk á Íslandi?
Við notuðum mest símafundi þar sem allir hringdu inn í „fundarherbergi“ símafyrir-tækisins, en Skype var líka að byrja þarna og það var eitthvað notað. Kerfin voru ekki jafn nettengd og þau eru nú og því var þetta aðeins þyngra í vöfum en það er í dag.
Hverjar voru helstu áskoranirnar?
Áskoranirnar tengdust helst fjarlægðinni og tímamismuninum en að sama skapi voru líka kostir samfara því, sér í lagi vegna tímamismunarins. Þegar var komið fram á kvöld á Íslandi sat ég við vinnu og þegar vinnufélagarnir komu til vinnu morguninn eftir höfðu verkefnin potast áfram. Ég var vanur að taka símtölin fyrir hádegi og svo hafði maður venjulega frið frá símanum eftir hádegið og gat unnið án truflunar sem gerði vinnuna oft mun „próduktífari“.
Vegna tímamismunarins, sem var fimm til sex tímar, kom hins vegar reglulega fyrir að viðskiptavinir hringdu í mig um miðja nótt. Þeir áttuðu sig venjulega á stöðunni þegar þeir heyrðu svefndrukkið svarið, en það kom þó reglulega fyrir að viðkomandi sagði: „Fyrirgefðu, ég steingleymdi tímamis-muninum, en fyrst þú ert vaknaður…“
Þurftir þú að koma til Íslands vegna vinnunnar?
Já, ég kom reglulega og var þá venjulega í nokkrar vikur í einu.
Hafði þessi fjarvera áhrif á starf þitt til langframa?
Nei, það held ég ekki. Ég mætti bara aftur á kontórinn fimm árum síðar og hélt áfram og er hér enn!
Eyrún Ingadóttir – aðstoðarritstjóri