Meistaramót Lögmannafélags Íslands fór fram á Hlíðavelli í Mosfellsbæ á blautum fimmtudegi 4. september síðastliðinn. Lögmenn, sem eru ýmsu vanir á brautum lífsins, létu það þó ekki aftra sér og tæplega 40 golfarar mættu vopnaðir regnfötum, sjóhöttum, regnhlífum … eða bara í sínum venjulegu golffötum og létu sem að rigningin væri góð. Og þannig var það; rigningin kom og rigningin fór. Rigningin kom svo aftur og hafði engin áhrif á leikgleðina þennan fyrsta fimmtudag septembermánaðar enda bærðist varla hár á höfði þótt einhverjir golfarar hefðu kennt austanáttinni um óvenju slaka frammistöðu. Aðrir kvörtuðu yfir ókunnugleika á vellinum og svo voru það þeir sem fengu leiðsögn kunnugra og skutu beint þangað sem þeir áttu ekki að fara! Svo voru það þeir sem tóku hvað eftir annað tveggja metra pútt beint í holu! Svona er golfið, tóm skemmtun!

Ræst var út á 1. og 10. braut samtímis sem eru staðsettar við hið glæsilega klúbbhús Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Í fjarska mátti svo sjá hollin taka sínar meistarasveiflur;  „Pingarana“, sem „sjatteruðu“ með eins regnhlífar, á meðan önnur holl voru litrík og alls konar í grösugum brekkum golfvallarins. Að loknu móti gæddu keppendur sér á heitri kjúklingasúpu frá Mexíkó og svo hófust verðlaunaafhendingar.

Punktakeppni:

  1. Húnbogi J. Andersen 38 punktar.
  2. Guðmundur Ágústsson 34 punktar.

Húnbogi er því golfmeistari LMFÍ árið 2025 og eru honum færðar hamingjuóskir.

Höggleikur:

  1. Árni Gestsson 74 högg.
  2. Húnbogi J. Andersen 78 högg.

Þá voru veitt verðlaun fyrir að vera næst holu á tveimur par þrjú brautum og þau hlutu Gestur Gunnarsson og Davíð Guðmundsson.

Við þökkum styrktaraðilum mótsins sem eru eftirfarandi: FínVín, Minigarðurinn, Brutta Golf, Golfbúðin Örninn, Húsgagnahöllin, VÍS, Motus og Pacta lögmenn.

Í golfnefnd að þessu sinni voru þau Inga Lillý Brynjólfsdóttir og Stefán Þór Eyjólfsson.

Þau voru bara nokkuð hress eftir hringinn í Mosfellsbæ enda völlurinn sérdeilis skemmtilegur og grínin einstaklega góð eftir sumarblíðuna.

 Stefán Geir Eyjólfsson, Inga Lillý Brynjólfsdóttir og Húnbogi J. Andersen.

Húnbogi J. Andersen, Árni Gestsson og Guðmundur Ágústsson.

Gestur Gunnarsson og Davíð Guðmundsson