Miðaldra nýliði gefur út ljóðabók um gólf

Um miðjan nóvember sat ritnefnd Lögmannablaðsins yfir gómsætu sushi og ræddi um hvern ætti að fá til að skrifa grein í jólablaðið. Þar var samþykkt að aðstoðarritstjórinn sæi sjálf um skrifin að þessu sinni enda nýútkomin úr skápnum sem golfskáld. Í framhaldinu fékk Copilot beiðni um að búa til spurningar og má því segja að hún spjalli hér við Eyrúnu Ingadóttur um ljóðabókina Upphafshögg – ljóð um listina að spila golf.

Máttur Siggu

Copilot: Hvað hvatti þig til að skrifa ljóðabók um golf?

Það er eiginlega svolítið fyndið. Ég hitti Siggu Pálma á Lagadagskvöldi fyrir nokkrum árum. Hún hafði séð myndir af mér munda kylfuna og sagðist fá marga golfara til sín í dáleiðslu til að laga forgjöfina. Ég ákvað að skella mér til hennar og í leiðinni að taka á hinni minnimáttarkenndinni sem sneri að því að ég gat varla sýnt nokkrum manni ljóðin sem ég orti. Einhvern veginn sló þessu saman eftir dáleiðsluna þannig að ég fór að yrkja ljóð um golf – og er alveg laus undan minnimáttarkenndum heimsins. Svona er máttur Siggu!

Í ljóðabókinni Upphafshögg – ljóð um listina að spila golf fjallar Eyrún um erfitt og viðkvæmt ástarsamband sitt við golfíþróttina en bókin er tileinkuð öllum þeim sem ganga um golfvelli í íslensku sumarveðri, vongóðir um að veðurspáin breytist til hins betra. Hér má sjá Eyrúnu norpa í norðanáttinni á Korpuvelli (sjónum) ásamt Himbrima sem svipað var ástatt fyrir „sumarið“ 2024

Grínið það mikilvægasta

Copilot: Hvernig tengist golf lífi þínu og skáldskapnum þínum?

Golf er afskaplega skáldleg íþrótt og það eru til fjöldamörg golfskáld sem bara vita ekki af því! Þau segja sögur af ótrúlegum höggum og fjölda þeirra! Allt saman skáldskapur!

Copilot: Hver eru helstu þemu eða hugmyndir sem þú vilt koma á framfæri í ljóðunum þínum?

Hvað golf er skemmtileg og óskaplega dramatísk íþrótt. Það langar alla að verða betri í golfi og það gera allir golfarar mistök, sama hvað forgjöfin er lág. Grínið er síðan alltaf það mikilvægasta því án þess væri ekki hægt að spila golf. Allt þetta er að finna í bókinni; grín og dramatík, ást og hatur, líf og dauði.

Ljóðabókin er hönnuð af Gabríel Benedikt Bachmann og er hver síða listaverk.

Á vettvangi voðaverka segir í ljóðinu Fugladans en náttúran og dýralífið er nærri á golfvöllum landsins og stundum gerast ævintýri.

Copilot: Hvernig hefur reynsla þín af golfi mótað skáldskapinn þinn?

Ég er náttúrulega að reyna að fara holu í höggi … að minnsta kosti vonast ég til að spila á pari.

Útiveran góð fyrir skáldin

Copilot: Getur þú deilt með okkur einhverju uppáhalds ljóði úr bókinni
og sagt okkur frá því hvernig það varð til?

Það er erfitt að gera upp á milli barnanna sinna. Meðal ljóða er hæka og tanka, sem eru japönsk ljóðaform, sum ljóðin eru alvarleg og önnur ekki. Sum full af ást og önnur ekki. En ljóðið sem ég birti hér, Fugladans, gerðist í raun og veru á Sjónum á Korpu. Náttúran er svo nærri á golfvöllunum og við urðum vitni að því að laupur krumma varð fyrir árás máva, vorum á vettvangi voðaverka.

Copilot: Hvernig hefur ferlið við að skrifa þessa bók verið fyrir þig?

Þetta hefur verið tóm gleði. Það er gott að leiða hugann að skáldskap norpandi í norðanáttinni á golfvellinum eða þegar vindurinn hættir skyndilega að flýta sér. Útiveran er svo góð fyrir skáldin.

Að sameina tvö áhugamál

Copilot: Hvaða áhrif vonar þú að bókin þín muni hafa á lesendur, sérstaklega þá sem hafa áhuga á golfi?

Að golfararnir fái áhuga á skáldskapnum og skáldin fyllist áhuga á golfinu er kannski rétta svarið en ég er nú bara að sameina tvö áhugamál og gera það sem mér finnst skemmtilegt. Aðrir fá svo að njóta ef þeir vilja.

Copilot: Hverjir eru þínir helstu áhrifavaldar í skáldskapnum?

Þeir eru margir, enda er ég alltaf með ljóðabækur á náttborðinu. Jón úr Vör er uppáhalds, sömuleiðis Vilborg Dagbjartsdóttir, Gerður Kristný og Þórdís Gísladóttir. Nýjar ljóðabækur eftir Aðalstein Ásberg og Kristínu Þóru Harðardóttur eru nú á náttborðinu, báðar fantafínar.

Copilot: Hvað ráð myndir þú gefa öðrum sem vilja sameina ástríðu sína
fyrir íþróttum og skáldskap?

Það væri gaman að lesa ljóð um fótbolta, glímu, hlaup …

Endir