Dómstólar hafa á síðustu misserum beitt sér fyrir reglum sem eiga að gera málsmeðferð skilvirkari. Það verður áhugavert að sjá hvernig reglur um hámarkslengd málflutningsskjala munu reynast, einkum í ljósi þeirra krafna sem gerðar hafa verið í íslensku réttarfari til sjálfstæðrar reifunar á öllum kröfum, atvikum og málsástæðum. Þá hefur Landsréttur greinilega fengið nóg af fjarveru lögmanna utan hefðbundins orlofstíma og úthlutað sjö dögum í lögmætar fjarvistir. Vonandi hefur þetta góð áhrif svo að Landsréttur nái að skipuleggja starfið betur og sérstaklega að dagskrá réttarins verði tilbúin með lengri fyrirvara.
Af fyrirtökum
Ég hef starfað við lögmennsku síðan vorið 1993. Það hefur alveg ótrúlega margt breyst í starfinu; viðfangsefnin hafa tekið stakkaskiptum, tækninýjungar hafa gert mörg verkefni margfalt einfaldari en áður og öll skipulagning á flóknari verkefnum er orðin mun markvissari en áður. Gervigreindin er nú að hefja innreið sína og maður er sjálfur kominn á þann aldur að vera með gríðarlega fordóma sem vonandi rjátlast af manni.
Það sem ég vildi segja var hins vegar að málsmeðferðin í einkamálum í héraði mætti almennt séð takast til skoðunar. Dómarar og lögmenn eyða enn fyrst og fremst gríðarlega miklum tíma í tilgangslausar fyrirtökur mála. Líklega erum við eina stéttin í landinu sem enn sendist með pappírsgögn á milli húsa til þess eins að leggja þau á borðið og staðfesta fresti til að lesa þau. Ein tíu mínútna fyrirtaka kallar á a.m.k. klukkutíma umstang og akstur með tilheyrandi kolefnisspori. Svo ekki sé talað um kostnað við þetta allt.
Boðun í fyrirtökur væri líka mun þægilegri og nútímalegri ef hún væri í formi fundarboðs og lögmenn fengju um leið rafrænan aðgang að skjalamöppu málsins hjá dómstólnum (eða í skýinu). Eins og staðan er núna er verið að skanna inn sömu gögn á mörgum stöðum, prenta út og senda á milli.
Nokkrar hugmyndir
Rekstur dómsmála er (einmitt) ekki einkamál dómara og lögmanna. Í mörgum tilvikum er hópur fólks viðriðinn málið, umbjóðendur og ráðgjafar þeirra þurfa að yfirfara gögn, vitni þurfa boðun í tæka tíð og dómkvaddir matsmenn þurfa mun meira aðhald í virkari skilafrestum þannig að áætlun um málsmeðferð standist. Stundum riðlast skipulagið, vikur verða að mánuðum og mánuðir að árum. Allt þetta eykur álag á dómstólana, sóar tíma og umbjóðendur skilja ekkert í því hvernig þetta getur gerst.
Orð eru til alls fyrst og ég vil nefna nokkrar hugmyndir sem gætu komið að gagni:
- Eftir greinargerðarskil þurfa að líða að lágmarki 4-6 vikur fram að fyrirtöku máls svo stefnandi geti kynnt umbjóðanda sínum ný gögn, aflað frekari gagna og tekið afstöðu til þess hvernig frekari sönnunarfærsla fari fram.
- Við fyrstu fyrirtöku málsins verði dómari og lögmenn vel undirbúnir. Þar verði sett upp tímasett málsmeðferðaráætlun fyrir fyrirtökur, aðalmeðferð og uppkvaðningu dóms. Þá geta allir hlutaðeigandi búið til pláss í dagbókum og nýtt tímann betur.
- Í flestum tilvikum ætti að duga ein viðbótar fyrirtaka (eftir atvikum rafræn) þar sem gagnaöflun yrði lokið. Lögmenn geta vel skipst á gögnum um leið og þau verða til og sent dómara. Þessi fyrirtaka ætti að vera t.d. einum mánuði fyrir aðalmeðferð. Þá væri hægt að ræða fyrirkomulag aðalmeðferðarinnar, málflutningstíma, skýrslutökur og önnur praktísk atriði. Dómari gæti jafnframt beint til lögmanna að fjalla í málflutningi um tiltekin atriði fremur en önnur og eingangrað betur það sem aðalmeðferðin ætti að snúa að.
- Héraðsdómarar ættu alltaf að kveða upp dóm innan fjögurra vikna eins og lög kveða á um. Það er alltof algengt að þetta dragist lengur og í raun algjörlega óásættanlegt þegar það veldur því að héraðsdómar eru ómerktir í áfrýjunardómi. Fyrir utan að það er miklu betra að semja dóm strax í framhaldi af aðalmeðferð.
Ég vona að þessar ábendingar veki til umhugsunar og umræðu. Útfærslurnar er hægt að leysa ef málið er nálgast með opnum huga.
Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður hjá Landslögum.
Sjá ennfremur: LMFÍ gerir athugasemdir við nýjar reglur Landsréttar