Réttarsviðið opinber innkaup er í mikilli þróun og fjöldi lögmanna og lögfræðinga sem vinnur að þessum málaflokki hefur aukist mjög á síðastliðnum árum. Þessi gróska sýndi sig vel á ráðstefnu um opinber innkaup sem haldin var 3. september síðastliðinn en þar mættu 140 manns og komust þó færri að en vildu.

Tilgangurinn með ráðstefnunni var að skapa vettvang fyrir lögmenn, lögfræðinga og aðra sérfræðinga, sem vinna að opinberum innkaupum, til að bera saman bækur sínar og fá fréttir af því nýjasta sem er á seyði á réttarsviðinu á Íslandi og erlendis. Faglegir skipuleggjendur ráðstefnunnar voru lögmennirnir Dagmar Sigurðardóttir hjá Lagastoð lögfræðiþjónustu, Eyþóra Kristín Geirsdóttir hjá Isavia og Margrét Gunnarsdóttir hjá norsku lögmannsstofunni Arntzen de Besche, sem jafnframt var fundarstjóri. 

Eftirtaldir sérfræðingar voru með erindi

  • Hrafn Hlynsson, lögfræðingur í Fjármála- og efnahagsráðuneyti, fræddi viðstadda um þær  breytingar sem eru í nánd á vettvangi Evrópusambandsins en þar fer fram endurskoðun á innkaupatilskipunum.
  • Reimar Pétursson, lögmaður og formaður Kærunefndar útboðsmála kynnti störf nefndarinnar og fór yfir nokkur áhugaverð kærumál.
  • Margrét Gunnarsdóttir lögmaður á norsku lögmannstofunni Arntzen de Besche fór yfir fyrirhugaðar lagabreytingar í Noregi. Þá fjallaði hún um kaflann í norsku og íslensku innkaupareglunum um kaup á félagsþjónustu og annarri sértækri þjónustu.
  • Stanley Örn Axelsson, sviðstjóri innkaupa hjá Fjársýslunni kynnti hverjar væru áherslur stofnunarinnar og fór yfir áhugaverð kærumál. ​
  • Hildur Georgsdóttir, framkvæmdastjóri hjá FSRE fór yfir vegferðina að útboðsleyfi og hverjar væru helstu áherslur FSRE.
  • Eyþóra Kristín Geirsdóttir, Forstöðumaður – Innkaup, lögfræði og upplýsinga- og skjalastjórnun hjá Isavia hélt fyrirlestur um gervigreind í opinberum innkaupum og var með leiðbeiningar til viðstaddra um notkun og áskoranir.  
  • Dagmar Sigurðardóttir, lögmaður á Lagastoð hélt erindi um aukna hagkvæmni og samkeppni í opinberum innkaupum.
  • Theódór Kjartansson, lögmaður hjá embætti Borgarlögmanns talaði um fresti í opinberum innkaupum og var með góðar ábendingar um hvernig reikna má tímafresti eftir Evrópureglum.

Þá hélt Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, erindið „Aukin skilvirkni útboða – tækifæri og áskoranir frá sjónarhorni bjóðenda“ þar sem hún fór yfir aðkomu samtakanna að útboðsmálum ásamt þeim Sunnu Ósk Kristinsdóttur, rekstrarstjóra og byggingarverkfræðings hjá Verkís og Atla Þór Jóhannssyni, framkvæmdastjóra Borgarverks sem sögðu frá reynslu sinna fyrirtækja við að taka þátt í útboðum.

Í lokin

Viðstaddir létu í ljós mikla ánægju með ráðstefnuna og erindin sem haldin voru enda ljóst að þetta réttarsvið fer vaxandi. Fjöldi lögfræðinga  og annarra sérfræðinga vinnur daglega að ýmsum álitamálum varðandi opinber innkaup, bæði hjá hinu opinbera og hjá fyrirtækjum sem bjóða upp á vöru og þjónustu. Þess má svo geta að fljótlega verður stofnað sérstakt félag innan Lögfræðingafélagsins um opinber innkaup.

Eyrún Ingadóttir

Stanley Örn Axelsson kynnti áherslur Fjársýslunnar og fór yfir áhugaverð kærumál.

Hildur Georgsdóttir fór yfir vegferðina að útboðsleyfi.

Eyþóra Kristín Geirsdóttir fjallaði um um gervigreind í opinberum innkaupum.

Theódór Kjartansson var með góðar ábendingar um hvernig reikna má tímafresti eftir Evrópureglum.

Dagmar Sigurðardóttir fjallaði um aukna hagkvæmni og samkeppni í opinberum innkaupum.

Margrét Gunnarsdóttir fór yfir fyrirhugaðar lagabreytingar í Noregi og reglurnar um um kaup á félagsþjónustu og annarri sértækri þjónustu

Vel var látið af þátttöku Samtaka iðnaðarins en Lilja Björk Guðmundsdóttir fjallaði um hvernig auka mætti skilvirkni útboða, tækifæri og áskoranir út frá sjónarhorni bjóðenda.  

Sunna Ósk KristinsdóttIr, sagði frá reynslu Verkíss af því að taka þátt í útboðum.

Atli Þór Jóhannsson, sagði frá reynslu Borgarverks af að taka þátt í útboðum.

Skipuleggjendur málþingsins f.v. Eyþóra Kristín Geirsdóttir, Dagmar Sigurðardóttir og Margrét Gunnarsdóttir.  Þær voru að vonum glaðar með hvernig til tókst.