Sjötta fyrirtækið er komið á markaðinn sem býður lögmönnum landsins upp á áskrift til að nálgast upplýsingar úr íslenskum og evrópskum réttarheimildum. Gríðarleg samkeppni er milli fyrirtækja sem bjóða lögfræðingum upp á gervigreindarlausnir en auk fyrirtækjanna Fordæmis, Lagavita, Lögmennis, Jónsbókar og Denovo, sem voru til umfjöllunar í Lögmannablaðinu fyrir stuttu (sjá umfjöllun hér), hefur Lögfinnur bæst í hópinn.
Að sögn Kjartans Vals Þórðarsonar framkvæmdastjóra þá varð Lögfinnur hluti af hugbúnaðarfyrirtækinu Vergo í byrjun árs. „Við bjóðum upp á málaskrárkerfi, verkefnastjórnun, skjalastjórnunarkerfi, tímaskráningar, heimildaleitarvél, vaxtareiknivél auk tenginga við bókhaldskerfi, SharePoint/OneDrive og Outlook. Og svo núna bætist gervigreindarlausnin Lögfinnur við.“
Hvers vegna ákváðuð þið að bjóða lögmönnum upp á gervigreindarlausn?
„Okkar markmið er að bjóða upp á samþætta lausn sem mætir öllum helstu þörfum lögmanna á einum stað. Við höfum frá upphafi hannað Vergo í nánu samráði við lögmenn sem hefur gert okkur kleift að þróa kerfi sem er sniðið að veruleika þeirra en flestar viðbætur okkar eru til komnar út frá beiðnum viðskiptavina sem síðan gagnast öllum notendum.“
Nú er gríðarleg samkeppni um hylli lögmanna varðandi gervigreindarlausnir, hvað hafið þið fram að færa umfram önnur fyrirtæki?
„Það er rétt að samkeppnin er mikil en Vergo býður upp á heildstæða lausn sem þýðir að lögmannsstofur þurfa ekki að vera með margar áskriftir í ólíkum kerfum sem sparar bæði tíma og fjármuni. Þótt gervigreindarlausnir séu allar að vinna út frá svipuðum heimildargrunnum, þá er mikill munur á því hvernig þær eru uppbyggðar tæknilega séð. Lögfinnur hefur verið hannaður til að vera mjög beinskeyttur og skýr, skipuleggja upplýsingar í kafla og punkta til að auðvelda lestur, en um leið veita sveigjanleika fyrir aðrar framsetningar sé þess óskað. Við lítum svo á að þetta sé aðeins byrjunin og höfum metnaðarfull framtíðarplön um að gera Lögfinn enn betri og öflugri,“ sagði Kjartan Valur Þórðarson í lokin.
Sjá ennfremur: