Nýlega sendi Skatturinn erindi til fjölda lögmanna þar sem þeir eru krafðir um upplýsingar um þá viðskiptavini sem þeir veita skattaráðgjöf eða aðra þjónustu sem snertir umráð eða eignaraðild viðskiptavinanna að rekstri félaga, sjóða eða stofnana sem skráð eru erlendis.  

Byggir krafa Skattsins á ákvæði fyrri málsliðar 4. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 4. gr. laga nr. 46/2009. Þrátt fyrir að víðtæk skylda hvíli á öllum aðilum til að láta skattyfirvöldum í té nauðsynlegar upplýsingar og gögn, sem þau biðja um á grundvelli umrædds ákvæðis, telur stjórn Lögmannafélags Íslands að gæta verði hófs í beitingu þess. Þótt skattayfirvöld hafi rúmar heimildir til mats á því hvenær slíkra upplýsinga sé þörf þarf slíkt mat að vera málefnalegt og fara að reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  

Trúnaðarskylda lögmanna 

Lögmannafélagið hefur nú sent Skattinum bréf og bent á að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn beri lögmaður þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Einnig hefur í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu rík áhersla verið lögð á trúnaðarsamband lögmanns og skjólstæðings, þ. á m. í samhengi við einkalífsvernd 8. gr. mannréttindasáttamálans, samanber samnefnd lög nr. 62/1994, og einnig í 71. gr. Íslensku stjórnarskrárinnar. Þessi túlkun á sér meðal annars stoð í dómi Michaud gegn Frakklandi. 

 Þá er í bréfi félagsins vakin sérstök athygli á nýjum sáttmála Evrópuráðsins til verndar lögmannastéttinni, sem ráðið samþykkti fyrr á þessu ári og íslensk stjórnvöld samþykktu þann 14. maí síðastliðinn. Þar er meðal annars kveðið á um trúnað lögmanna við skjólstæðinga og að þeir séu ekki skyldugir til að upplýsa, afhenda eða gefa vitnisburð um samskipti við þá. 

Eyrún Ingadóttir, aðstoðarritstjóri