Keimlík reynsla
Fyrir hádegi var fjallað um störf og reynslu kvenna í lögmennsku og voru lögmennirnir Lára V. Júlíusdóttir, sem hefur starfað frá 1980 og var sæmd gullmerki LMFÍ fyrr á árinu, Þorbjörg I. Jónsdóttir, sem hefur starfað frá árinu 1996, og Rebekka Ósk Gunnardóttir, sem hefur verið í lögmennsku frá árinu 2021, framsögumenn. Það var mjög áhugavert að heyra hvað reynsla þessara lögmanna var að mörgu leyti keimlík þótt þær kæmu á mismunandi tíma inn í stéttina. Umfjöllunarefnin hjá frummælendum voru einkum skiptastjórn í þrotabúum, málskostnaðarákvarðanir dómstóla og gjaldtaka fyrir lögmannsstörf. Þá einkum hvort greina mætti kynjasjónarmið á þessum sviðum, hvort sem væri hjá dómstólum sem ákveða hvaða lögmenn annast skipti á þrotabúum og málskostnað eða hjá kaupendum lögmannsþjónustu. Á eftir urðu líflegar umræður þar sem fram komu meðal annars þau sjónarmið að merkja mætti þá tilhneigingu hjá dómstólum að skipa frekar karla sem skiptastjóra í þeim þrotabúum, þar sem eignir væru fyrir hendi, en konur í eignalausum búum.

Páley Borgþórsdóttir.

Hluti af stjórn FKL og skipuleggjendum afmælishátíðarinnar f.v. Kristrún Elsa Harðardóttir og Þorbjörg Inga Jónsdóttir.

F.v. Mæðgurnar Kolbrún Kristín Antonsdóttir og Eva Dóra Kolbrúnardóttir formaður FKL.

F.v. Rebekka Ósk Gunnarsdóttir, Felicia M. Pralea, Tinna Rán Sverrisdóttir og Sandra Ósk Jónsdóttir.

F.v. Ásta Björk Eiríksdóttir, Inga Lillý Brynjólfsdóttir og Lilja Margrét Olsen.
Refsiréttur
Eftir hádegi var farið yfir ákvæði hegningarlaga um ofbeldi og hvort þörf sé á lagabreytingum til að mæta betur þróuninni á sviði refsiréttar, þá með sérstakri áherslu á refsinæmi andlegs ofbeldis. Erindi fluttu Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi Eystra, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, saksóknari hjá lögreglunni á Suðurnesjum, og Inga Lillý Brynjólfsdóttir lögmaður.
Áhugavert þótti að Páley og Alda voru ekki sammála um þörfina á því að breyta ákvæðum hegningarlaga til að mæta betur brotum sem fela í sér andlegt ofbeldi. Páley fór yfir nauðsyn þess að bæta inn í hegningarlögin ákvæði sem tekur á refsinæmi andlegs ofbeldis með skýrari hætti á meðan Alda taldi þau ákvæði sem fyrir eru taka skýrt á refsinæminu en beita mætti þeim með ríkari hætti. Inga Lillý stýrði svo mjög áhugaverðum umræðum þar sem gott samtal tókst meðal frummælenda og lögmanna enda margir vanir réttargæslumenn og verjendur í salnum.
Það var samhljóða niðurstaða að málþingið hefði verið einkar vel heppnað þar sem konur hefðu átt frábæran dag á hátíðarmálþinginu og gagnleg umræða átt sér stað um stöðu kvenna í lögmennsku, refsirétt og ýmis önnur álitaefni.
Að lokinni formlegri dagskrá og móttöku FKL var áherslan færð yfir á svið kauparéttar þar sem verslunin Ozone var með sérstakt heimboð fyrir málþingsgesti sem var virkilega veglegt og kom án efa bæði gestgjafa og gestum til góða. Deginum lauk svo á hátíðarkvöldverði á Fröken Selfoss samkvæmt auglýstri dagskrá en eftir það var voru önnur óformleg atriði allt eftir áhuga og úthaldi hverrar og einnar.
Stjórn FKL er himinlifandi með daginn og þakkar dásamlega samveru. Kvenorkan, samstaðan og gleðin sem myndast þegar konur koma saman er engri lík.
Fyrir hönd stjórnar FKL,
Kristrún Elsa Harðardóttir og Þorbjörg Inga Jónsdóttir