„Þróun og innleiðing réttarvörslugáttarinnar fyrir dómstólana er stórt og flókið verkefni, bæði tæknilega og lagalega, enda þarf stafræn málsmeðferð að samrýmast réttaröryggi og grundvallarreglum um réttláta málsmeðferð,“ segir Kristín Haraldsdóttir framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar sem hefur síðustu ár unnið að þróun réttarvörslugáttar fyrir dómstóla. Lögmannablaðið tók hús á þeim Kristínu og Snædísi Ósk Sigurjónsdóttir lögfræðingi til að forvitnast um hvernig gengi með þetta gríðarstóra verkefni. 

Hvernig er staðan í dag í hinni stafrænu vegferð?

Kristín: Það var ákveðið í upphafi að byrja á sakamálum og eru allar lagaheimildir fyrir hendi svo reka megi sakamál rafrænt og nýta stafrænar lausnir eftir að lög nr. 53/2024 um breytingu á lögum um meðferð sakamála, lögum um meðferð einkamála og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. tóku gildi í júlí 2024.

Snædís: Rannsóknarmál hafa borist héraðsdómstólum um réttarvörslugátt í nokkur ár og til Landsréttar í um tvö ár. Fyrir um ári síðan bárust svo fyrstu ákærumálin til héraðsdómstólanna en fyrst um sinn aðeins í umferðalagabrotum. Í febrúar síðastliðnum heimilaði dómstólasýslan ákæruvaldinu að senda ákæru, ásamt öðrum skjölum, til héraðsdómstóla í málum þar sem ákært væri fyrir önnur brot samhliða umferðalagabrotum. Frá 26. september hefur ákæruvaldinu svo verið heimilt að senda ákærur í öllum málum til héraðsdómstóla um gáttina þegar það er tæknilega mögulegt. Að svo stöddu á það aðeins við í málum þar sem einn er ákærður. Samhliða því að ákærumál fóru að berast héraðsdómstólum um réttarvörslugátt var farið að birta ákærur og fyrirköll í stafrænu pósthólfi.

Hvers vegna er einungis hægt að senda mál þar sem einn er ákærður?

Snædís: Það að ákærðu séu fleiri en einn í sama máli getur flækt málsmeðferðina og þarf viðmótið í réttarvörslugáttinni að gera ráð fyrir öllum mögulegum tilvikum sem upp geta komið. Til dæmis þarf að vera hægt að kljúfa mál, gera ráð fyrir mismunandi afstöðu ákærðu til sakarefna og mismunandi niðurstöðu. Unnið er að því að gera þetta tæknilega mögulegt og er viðmótið í hönnun.

Finnst ykkur þróunin ganga nógu hratt fyrir sig?

Kristín: Þróun réttarvörslugáttarinnar gengur vissulega hægar en við myndum vilja en þar spilar m.a. inn í takmarkað fjármagn frá fjárveitingarvaldinu. Á hinn bóginn hefur verið lögð áhersla á það frá upphafi að vandað sé til verka og verkefnið unnið í skrefum. Er það í samræmi við ráðgjöf frá systurstofnunum okkar á Norðurlöndunum.

Samkvæmt reglum dómstólasýslunnar um form, afhendingarmáta og staðfestingu skjala í dómsmálum nr. 1662/2024 er skylt að senda gögn í sakamálum rafrænt til héraðsdómstóla, óháð því hvort þau komi jafnframt á pappír. Á meðan réttarvörslugáttin getur aðeins tekið við ákveðnum málategundum hefur dómstólasýslan boðið upp á rafrænar gagnasendingar um bráðabirgðagátt. Sú gátt er langt frá því að vera fullkomin enda fyrst og fremst hugsuð sem tímabundin gjaldfrjáls lausn til gagnasendinga.

Hver eru næstu skref í hinni stafrænu vegferð?

Kristín: Næsta stóra skref í sakamálum er birting dóma í stafrænu pósthólfi. Þróun hvað það varðar er á lokametrunum og munu birtingarnar hefjast innan fárra vikna. Þá er verið að vinna í því að réttarvörslugáttin geti tekið við málum þar sem fleiri eru ákærðir. Ef við horfum aðeins lengra fram í tímann þá er komið að því að tryggja að ákærumálin geti flætt rafrænt til Landsréttar og síðan Hæstaréttar.

Hvað einkamálin varða þá þarf frekari lagabreytingar svo þau megi reka rafrænt. Þar skiptir höfuðmáli að ákvæði laga um meðferð einkamála um þingfestingu gera enn ráð fyrir að málin komi inn á pappír. Dómstólasýslan horfir nú til þess að þau einkamál sem sæta afbrigðilegri meðferð, þ.e. þau sem dómstólarnir birta fyrirkall í, geti farið í rafrænan farveg. Við sjáum tækifæri til að fækka með því handtökum og bæta nýtingu mannafla við dómstólana. Dómstólasýslan sendi tillögur til dómsmálaráðuneytisins síðastliðið vor um breytingar á ýmsum lögum, þ.á m. lögum um gjaldþrotaskipti og lögum um nauðungarsölu sem heimiluðu birtingu fyrirkalls í stafrænu pósthólfi. Ákvæðum þess efnis var bætt við frumvarp dómsmálaráðuneytisins um breytingu á lögum varðandi stafræna og rafræna málsmeðferð hjá sýslumönnum og dómstólum sem birt var í Samráðsgáttinni nú í lok ágúst.

Eru starfsmenn réttarkerfisins jákvæðir gagnvart rafrænum skilum gagna?

Snædís: Reynslan af rannsóknarmálunum hefur verið mjög góð og dómarar eru sammála um að réttarvörslugáttin hafi einfaldað meðferð rannsóknarmála til muna. Reynslan af ákærumálum er styttri og innleiðingin í raun enn í gangi en dómstólarnir virðast almennt jákvæðir. Við höfum lítið heyrt frá verjendum og ákærendum. Það hafa þó komið einstaka ábendingar frá ákærendum þar sem m.a. hefur verið kallað eftir því að mega senda ákærur í fleiri málum en umferðalagabrotum um réttarvörslugátt. Dómstólasýslan brást við þeirri ábendingu með ákvörðun sinni frá 26. september sl.  Dómstólasýslan  fagnar öllum ábendingum um hvernig megi gera betur og hvetur lögmenn til að hafa samband við okkur.

Hvað eru margir að vinna í verkefninu?

Snædís: Verkefnið um réttarvörslugátt er rekið af dómsmálaráðuneytinu og er gríðarlega umfangsmikið. Að því koma margir frá mismunandi stofnunum réttarvörslukerfisins en hvað varðar þann hluta sem snýr að dómstólunum er það að einhverju leyti á herðum allra starfsmanna dómstólasýslunnar þótt tveir hafi unnið mest að því. Eins hefur starfsfólk dómstólanna verið viljugt til að leggja sitt af mörkum  og lögmenn hafa einnig verið okkur innan handar, meðal annars í rýnihópi lögmanna.

Hvenær má búast við því að öll mál verði stafræn?

Kristín: Réttarvörslugáttin nær til fleiri stofnana réttarvörslukerfisins sem allar þurfa að ganga í takt. Dómstólasýslan hefur lagt áherslu á að öll sakamál verði komin inn í gáttina sem fyrst og þegar nauðsynlegar breytingar á lögum um meðferð einkamála hafa verið gerðar er hægt að byrja á einkamálunum. Það er ekki alfarið á okkar forræði og því erfitt að meta hvenær að því kemur.

Ekki má gleyma því að tæknivæðing dómstólanna snertir á mun fleiri þáttum en réttarvörslugáttinni. Varanleg heimild til stafrænna þinghalda, sem kom inn með lögum nr. 53/2024, er mjög þýðingarmikil og til þess fallin að bæta aðgengi að dómstólum og auka skilvirkni í þeim málum þar sem slík þinghöld geta átt við. Dómstólasýslan hefur áhuga á því að kanna í hvaða tilvikum og hversu oft slík þinghöld fara fram. Þá væri áhugavert að vita hversu oft lögmenn óska eftir því að þinghöld fari fram um fjarfundabúnað. Tæknibúnaður til stafrænna þinghalda er til staðar hjá héraðsdómstólunum og Landsrétti en kominn er tími á að fá nýjan og fullkomnari búnað. Kaup á slíkum búnaði er í útboðsferli og má gera ráð fyrir því að uppsetning hans hefjist snemma á nýju ári. Nýr búnaður er líka forsenda þess að unnt verði að taka í notkun svokallaðan talgreini sem getur fært talað mál í texta. Að lokum er vert að nefna að dómstólasýslan er nú á lokametrunum við hönnun á nýjum vef dómstólanna þar sem m.a. verður ný dómaleitarvél.

Snædís Ósk Sigurjónsdóttir

Kristín Haraldsdóttir