Umtalsvert færri úr hópi öryrkja eiga þess kost að leita réttar síns fyrir dómstólum þar sem lágmarks örorkubætur eru nú töluvert yfir tekjuviðmiði gjafsóknar. Telur Lögmannafélag Íslands að þetta kunni að stangast á við ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar sem og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  

Lögmannafélag Íslands hefur farið þess á leit við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra að hún beiti sér fyrir hækkun á tekjuviðmiði umsækjenda um gjafsókn þar sem lágmarks örorkubætur fóru yfir tekjuviðmið gjafsóknarreglna þegar þær voru leiðréttar 1. september síðastliðinn. Viðmiðunarmörk árstekna einstaklings, sem sækir um gjafsókn á grundvelli bágrar fjárhagsstöðu, eru nú kr. 4.999.205,- en samkvæmt heimasíðu TR nemur grunngreiðsla örorkulífeyris til einstaklings nú kr. 4.756.080, auk kr. 788.508 heimilisuppbótar og kr. 375.480 aldursviðbótar, samtals kr. 5.920.068,-.

Þá vakti félagið athygli ráðherra á ‏því að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að umsókn um gjafsókn berist dómsmálaráðuneytinu eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalmeðferð máls, þá áskilji gjafsóknarnefnd sér allt að mánaðar frest til að taka afstöðu til gjafsóknarbeiðna. Þar sem áfrýjunarfrestur er alla jafna einnig mánuður er sá frestur með öllu óásættanlegur.

Að lokum benti Lögmannafélagið ráðherra á nauðsyn þess að gerðar verði breytingar á skilyrðum um að börn yngri en 18 ára séu með skráð lögheimili hjá umsækjanda gjafsóknar. Á meðan viðmiðunartekjumörk nema nú kr. 555.766,- á barn, sem er með skráð lögheimili hjá umsækjanda, þá nýtur foreldri, sem sækir um gjafsókn, þess að engu leyti þrátt fyrir að það greiði fullt meðlag og sé með jafna umgengni.

Eyrún Ingadóttir