Miðvikudaginn 24. september fer fram útför Hrafnhildar Stefánsdóttur lögmanns, f.v. yfirlögfræðings Samtaka atvinnulífsins sem lést 12. september 2025. Hrafnhildur var fædd 18. nóvember 1946. Hún lauk cand.juris prófi frá Háskóla Íslands árið 1974 og stundaði nám í vinnurétti í Svíþjóð 1983-1987. Hrafnhildur varð héraðsdómslögmaður 1992 og hæstaréttarlögmaður 2001. Hrafnhildur var ritstjóri Lögmannablaðsins 2006-2008 en árið 2021 birtist viðtal við hana þar sem hún leit yfir farinn veg. Lögmannafélag Íslands vottar ástvinum hennar samúð sína.
Mikil tarnavinna að vera í kjaraviðræðum
Hrafnhildur hóf störf hjá Vinnuveitendasambandi Íslands árið 1987 sem varð að Samtökum atvinnulífsins árið 1999 eftir samruna við Vinnumálasambandið. Hún var yfirlögfræðingur SA frá árinu 2001 til starfsloka. Hún sat í fjölda stjórna og nefnda á vegum SA, m.a. í jafnréttisráði, stjórn Ábyrgðasjóðs launa, stjórn Háskólans á Bifröst og var aðalmaður SA á þingum ILO – Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Hrafnhildur kom að stofnun Vinnuréttarfélags Íslands árið 2001 og sat frá upphafi í stjórn félagsins. Hún gegndi trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Hvers vegna fórst þú að læra lögfræði?
Ég byrjaði í kennaranámi og tók kennarapróf frá K.Í árið 1967. Ég kunni ekki við mig í því, fór í lögfræði og fann mig strax í henni. Þegar ég var nýbyrjuð í lagadeild þá fór ég á Rótarýfund með föður mínum. Maður sem sat við borðið spurði hvað ég væri að gera og þegar ég sagði honum það þá spurði hann: „Hvað ætlar þú að gera með það, vina mín?“ Ég náði ekki að svara því pabbi var fljótari til: „Hún ætlar bara að sjá fyrir sér“, sagði hann. Þetta var viðhorfið á þessum tíma.
Hvað kom til að þú sérhæfðir þig í vinnurétti?
Fyrst eftir útskrift frá HÍ starfaði ég sem fulltrúi í menntamálaráðuneytinu en árið 1976 fluttum til Västerås í Svíþjóð þar sem eiginmaður minn, Hjalti Á Björnsson, stundaði sérnám í bæklunarlækningum. Ég var til að byrja með heima með börnin tvö, sem eru fædd árið 1970 og 1975, en fékk svo vinnu við mannauðsdeild bæjarfélagsins, meðal annars við starfsmannaráðningar. Í kjölfarið fékk ég áhuga á vinnurétti svo það lá beint við að sérhæfa sig í því. Við fluttum síðar til Lundar og þar stundaði ég framhaldsnám í vinnurétti.
Hvenær fórst þú að starfa hjá SA?
Fljótlega eftir að við fluttum heim og ég lauk framhaldsnámi mínu hafði ég samband við Vinnuveitendasamband Íslands og var ráðin sem lögfræðingur hjá þeim. Síðar var mér sagt að þeir hefðu velt fyrir sér hvort konur gætu sinnt kjaraviðræðum en á þessum tíma fylgdu þeim oft mikil átök. Kjaraviðræðurnar stóðu oft langt fram eftir nóttu þar sem samningsaðilar voru hafðir í hálfgerðri einangrun en það gat tekið fleiri daga að ná saman samningshópnum ef hann fór heim. Einu sinni ætluðu viðsemjendur okkar að ganga út en þá stóð kona hjá ríkissáttasemjara í dyrunum og meinaði þeim útgöngu.
Ég fór strax að vinna við kjarasamninga og var fyrsta konan vinnuveitenda megin sem tók beinan þátt í kjaraviðræðum. Til dæmis sá ég alltaf um að semja við flugfreyjur, sem þótti henta vel því ég hafði unnið með námi sem flugfreyja. Það var oft mikil tarnavinna að vera í kjaraviðræðum.
Milli kjaraviðræðna fór mestur tíminn í lögfræðiráðgjöf við aðildarfyrirtæki SA, ýmsa nefndarvinnu og kennslu í vinnurétti, m.a. við HÍ. Eftir gildistöku EES-samningsins þurfti að innleiða mikið af Evrópureglum á sviði vinnuréttar, annað hvort með lagabreytingum eða með samningum SA og ASÍ og tók ég virkan þátt í því.
Svo sinnti ég einnig alþjóðlegu samstarfi, var árum saman aðalmaður SA á þingum ILO í Genf, var í nefndum Business Europe, evrópusamtaka atvinnurekenda, og í norrænu samstarfi atvinnurekendasamtaka. Þetta var mjög gefandi og skemmtilegt. Ég var líka í málflutningi fyrir aðildarfyrirtæki SA, bæði héraðsdómi og Hæstarétti og flutti um 40 mál fyrir Hæstarétti. Mest flutti ég þó mál fyrir Félagsdómi.
Manstu eftir einhverjum sérstaklega erfiðum samningaviðræðum?
Allar kjaraviðræður eru erfiðar enda tekist á og vinnudagar langir. Ég bar m.a. ábyrgð á kjarasamningum olíufélaganna og Icelandair þar sem oft kom til verkfallsátaka. Deilt var m.a. um hverjir mætti vinna í verkfalli og langt gengið í verkfallsvörslu af hálfu stéttarfélaganna.
Ég vann alla tíð hjá VSÍ/SA uns ég hætti störfum í árslok 2019. Það var ljúft að vinna hjá SA og ég hef alltaf verið heppin með samstarfsfólk.
Eyrún Ingadóttir

