
Þann 28. mars sl. sendu Norrænu lögmannafélögin frá sér sameiginlega stuðnings-yfirlýsingu til American Bar Association í tilefni ítrekaðra atlaga bandarískra stjórnvalda á hendur einstökum lögmönnum og lögmannsstofum vegna hagsmunagæslu þeirra fyrir umbjóðendur sem ekki þóknast stjórnvöldum. Í yfirlýsingunni lýstu lögmannafélögin áhyggjum sínum yfir þróun mála í Bandaríkjunum út frá áhrifum á sjálfstæði lögmannastéttarinnar og dómstóla, sem sé grundvöllur „Rule of Law“ í lýðræðissamfélögum. M.a. er bent á að pólitísk aðför að lögmönnum varpi ljósi á mikilvægi þess að vernda það mikilvæga hlutverk lögmanna að geta veitt umbjóðendum sínum óháða ráðgjöf, án hættu á að vera beittir pólitískum þrýstingi. Með sama hætti verði dómskerfið að hafa ótakmarkað frelsi til að túlka og beita lögum hlutlaust og án utanaðkomandi áhrifa eða ógnana.
Norrænu lögmannafélögin deila sömu áhyggjum og hafa komið fram af hálfu International Bar Association og American Bar Association um stöðu mála í Bandaríkjunum og leggja áherslu á að sterk og sjálfstæð lögmannastétt sé grundvöllur lýðræðislegra stjórnarhátta og rétti þegnanna til að bera mál sín undir dómstóla. Enn fremur er í yfirlýsingunni skorað á öll fylki Bandaríkjanna að tryggja sjálfstæði réttarkerfisins og sýna hlutverki þeirra sem innan þess starfa virðingu. Lögmenn á Norðurlöndunum standi með bandarískum starfsbræðrum sínum sem standa vörð um þessi grundvallargildi í þeim krefjandi aðstæðum sem nú eru uppi. Þann 10. apríl sendu svo samtök evrópskra lögmannafélaga (CCBE), sem Lögmannafélag Íslands er aðili að, frá sér yfirlýsingu þar sem minnt er á evrópsk gildi varðandi Rule of Law; mannréttindi og mikilvægi sjálfstæðra dómstóla og lögmannastéttar í lýðræðissamfélögum. Þrátt fyrir að yfir-lýsingin sé almennt orðuð og stjórnvöld í Bandaríkjunum hvergi nefnd á nafn, ætti fáum að dyljast tilefni hennar.
Ingimar Ingason – framkvæmdarstjóri LMFÍ