Kristín Benediktsdóttir var kjörin umboðsmaður Alþingis í lok september síðastliðnum og er þar með fjórða manneskjan til að gegna embættinu; á eftir Gauki Jörundssyni, Tryggva Gunnarssyni og Skúla Magnússyni, frá því það tók til starfa árið 1988. Kristín átti sér annan starfsferil sem fiðluleikari og fiðlukennari áður en hún hóf nám í Lagadeild Háskóla Íslands og hefur síðan þá gegnt fjölda trúnaðarstarfa í samfélagi lögfræðinga.
Blaðamenn Lögmannablaðsins heimsóttu Kristínu á nýjum vinnustað í miðbænum og forvitnuðust um náms- og starfsferil hennar.
Tónlist og lögfræði nátengd
Það er óhætt að segja að þú hafir farið óhefðbundna leið í námi þar sem þú byrjaðir á því að ljúka fiðlukennaraprófi árið 1990 og burtfararprófi í fiðluleik árið 1992. Hvað kom til að þú tókst U beygju og hófst nám í lögfræði?
Þegar ég var í framhaldsnámi í Hollandi var verið að leggja niður margar sinfóníuhljómsveitir og landslagið í tónlistinni að breytast. Þannig má segja að útlitið hafi ekki verið beint bjart fyrir þau sem voru í námi og ætluðu að leggja þetta fyrir sig. Á þessum tíma hafði ég líka fengið ýmis tækifæri, eins og til dæmis að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku óperunni og mér fannst allt í einu vera kominn réttur tími til að prófa eitthvað annað og feta nýjar slóðir. Ég hafði haft svolítinn áhuga á lögfræði og ákvað því að prófa að fara í Háskóla Íslands. Mér fannst sérstaklega gaman í náminu og ekki síður skemmtilegt að vera í bekk eftir að hafa tekið stúdentspróf frá MH. Ég útskrifaðist úr Lagadeildinni eldri en flestir í mínum árgangi eða 31 árs gömul.
Starfaðir þú við tónlistina áður en þú hófst laganámið?
Já, ég var tónlistarkennari í sjö ár með námi og kenndi einnig á meðan ég var í laganámi. Ég kenndi í hinum ýmsu tónlistarskólum, til dæmis í Suzuki tónlistarskólanum og einn vetur í Vestmannaeyjum. Þá spilaði ég á hinum ýmsu viðburðum og með Sinfóníunni og óperunni. Mér þykir mjög vænt um þetta fyrra líf mitt enda kynntist ég mörgu góðu fólki og var heppin með kennara. Nú er dóttir mín, 18 ára, að fara taka framhaldpróf á fiðlu og með henni endurnýjaði ég kynnin við tónlistarskólana sem ég var í hér heima.
Er eitthvað líkt með lögfræði og tónlist?
Tónlist og lögfræði eru nátengd því bæði fögin ganga út á það að túlka og skapa; hvort sem það eru nótur eða lagatexti. Mér hefur alltaf fundist að tónlistarnámið hafi komið sér vel í lögfræðinni. Ég er menntaður fiðlukennari og ég gantaðist stundum með það í Lagadeildinni að ég væri eini kennarinn með kennarapróf!
Mun sakna nemenda
Viðkomustaðir þínir í lögfræðinni hafa verið stjórnkerfið, dómskerfið og fræðasamfélagið en auk þess starfaðir þú sem sjálfstætt starfandi lögmaður árin 2007-2012. Hvernig líkaði þér lögmennskan?
Ég kunni vel við mig en ég var sjálfstætt starfandi lögmaður á lögmannsstofu með Kristni Bjarnasyni, Friðjóni Erni Friðjónssyni, Brynjari Níelssyni, Sigurmar K. Albertssyni, Gizuri Bergsteinssyni, Guðmundi Óla Björgvinssyni, Halldóri Backman og Skúla E. Sigurz. Ég hafði byrjað að kenna sem stundakennari við Lagadeild Háskóla Íslands árið 2002 og smám saman fór akademían að toga fastar í mig og þangað fór ég alfarin árið 2012 þegar ég hóf störf sem lektor í réttarfari. Á þessum árum sat ég í hinum ýmsum stjórnsýslunefndum og hélt því áfram þar til ég tók við starfi umboðsmanns.
Hvað hefur verið skemmtilegast af þessum störfum?
Það var mjög gaman að vera í dómstólunum, bæði sem aðstoðarmaður í Hæstarétti og svo sem dómari, en ég var settur dómari við Landsrétt nú í haust í sex vikur. Þá var líka gaman að starfa í fræðasamfélaginu í Háskóla Íslands með frábærum samstarfsmönnum og að umgangast laganemana sem er auðvitað mjög gefandi og mun ég sakna þeirra.
Í sumar hlaustu framgang í starf prófessors við Háskóla Íslands. Var starf umboðsmanns Alþingis eitthvað sem þú stefndir á?
Nei, ég hef aldrei stefnt á neitt og því má segja að allt sem ég hef fengist við hafi verið háð tilviljunum. Sem laganemi hóf ég störf í ráðuneyti og ég var þar einnig eftir útskrift í nokkra mánuði. Þá bauðst mér starf hjá umboðsmanni Alþingis og það var mjög góður skóli þar sem ég lærði vinnubrögð sem hafa nýst mér í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Þremur árum síðar varð ég aðstoðarmaður dómara í Hæstarétti. Ég naut þess alveg sérstaklega að starfa þar. Þar var allt annar andi, meiri hraði og spenna. Álagið var meira en mér var tekið vel frá fyrsta degi og treyst til að sinna mjög skemmtilegum verkefnum. Það var líka frábær vinnustaður. Ég var síðan aftur hjá umboðsmanni 2005 til 2006 þegar ég fór í lögmennskuna.
Erum hætt að þéra þau sem kvarta
Nú eru 18 ár síðan þú vannst síðast hjá umboðsmanni og ýmsar samfélagslegar breytingar hafa orðið á þeim tíma. Hefur embættið breyst?
Já, það eru til dæmis mun fleiri starfsmenn og miklu fleiri mál eða um helmingi fleiri kvartanir auk þess sem frumkvæðismálin eru fleiri. Þá er sérstök skrifstofa sem sér um eftirlit með aðstæðum frelsissviptra. Eru gefnar út sérstakar skýrslur á ári hverju um heimsóknir í fangelsi og geðdeildir svo dæmi sé tekið. Við vorum sjö þegar ég hætti fyrst á sínum tíma, svo níu þegar ég hætti í seinna skiptið og nú erum við 18 talsins. Það er einnig mun meiri hraði á öllu. Umboðsmaður býr svo vel að vera með einstaklega öflugt og gott starfsfólk.
Er von á áherslubreytingum hjá umboðsmanni Alþingis?
Já, það urðu strax breytingar fyrsta daginn þegar umboðsmaður Alþingis varð hún en ekki hann. Þann dag var líka hætt að þéra þau sem kvörtuðu til umboðsmanns. Svo mun númerakerfið breytast frá áramótum. Nú eru málin orðin rúmlega 13.000 og hefur númerakerfið rúllað frá stofnun embættisins. Fyrsta mál ársins 2025 verður aftur á móti númer 1. Ég ákvað líka að skapa nýtt heildarútlit umboðsmanns Alþingis í samvinnu við starfsmenn embættisins. Sem dæmi þá verður letrinu breytt í bréfum og álitum umboðsmanns og skýrslurnar fá annað útlit. Auðvitað stefni ég á að halda áfram því góða starfi sem embættið hefur verið þekkt fyrir þessa áratugi sem það hefur verið starfrækt og viðhalda því trausti sem það hefur áunnið sér. Við hjá embættinu munum samt opna gluggann og horfa út, anda að okkur fersku lofti enda eðlilegt að með nýju fólki komi nýjar áherslur. Svo er ég líka að breyta skrifstofunni sem ég hef til afnota í þessu fallega og sögufræga húsi en hún hentar mér ekki.
Nú eru stjórnsýslulögin komin á fertugsaldurinn, eru stjórnvöld ekki farin að kunna þetta betur?
Jú, það myndi ég segja. Álitum hefur fækkað og það eru komnar í staðinn ábendingar til stjórnvalda þegar málum er lokið með bréfum ef eitthvað er aðfinnsluvert. Nokkuð stór hluti þeirra 500 mála sem eru tekin fyrir á ári hverju eru tafamál þar sem stjórnsýslan er ekki að svara erindum innan tilskilins frests. Þá eru ný og flóknari vandamál en áður sem fylgja því samfélagi sem við búum í. Það sem mig langar sérstaklega að gera er að leggja áherslu á leiðbeiningarhlutverk umboðsmanns gagnvart almenningi og stjórnsýslunni. Til að mynda stefni ég á að vera ásamt öðru með betri og einfaldari upplýsingar á heimasíðunni. Það er mikilvægt að borgararnir upplifi sig velkomna til umboðsmanns og að umboðsmaður sé úrræði sem skipti þá máli. Þetta er líka mikilvægt fyrir stjórnvöld. Í því felst eftirlit og aðhald umboðsmanns og ekki síður leiðbeiningar til handa stjórnvöldum þar sem við viljum öll að hún sé skilvirk og fari að lögum.
Karlar kvarta mun oftar en konur
Er eitthvað sem kemur á óvart?
Það er raunar eitt sem vekur athygli og það er eitthvað sem hefur í raun ekki breyst á þeim 25 árum þegar ég byrjaði fyrst að vinna hjá umboðsmanni. Karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem kvarta til umboðsmanns. Ég veit ekki af hverju þetta er en mér finnst rétt að fylgjast með þessu og mögulega er þetta eitthvað sem þarf frekari skoðunar við af hálfu embættisins.
Í lokin, spilar þú ennþá á fiðluna?
Já, það vill svo skemmtilega til að um svipað leyti og ég var kjörin umboðsmaður Alþingis þá fékk ég boð frá mínum gamla kennara, Guðnýju Guðmundsdóttur, þar sem hún bauð öllum fyrrum nemendum sínum að spila á tónleikum og fagna 50 ára kennaraafmæli hennar í lok desember. Ég hef í gegnum árin reynt að sinna fiðlunni eins og ég get og nú hlakka ég til að taka þátt í þessu verkefni.
Ari Karlsson og Eyrún Ingadóttir