Það var mikið um dýrðir föstudaginn 10. október síðastliðinn þegar Lagadagurinn var haldinn í 17. sinn. Frá upphafi hefur dagurinn verið stærsti viðburður lögfræðingasamfélagsins  en að þessu sinni voru sjö málstofur í boði. Sem fyrr stóðu Lögmannafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og Dómarafélag Íslands að deginum og í ár tóku um 460 manns þátt í einhverjum af viðburðum dagsins. Hér koma myndir af málstofum en í næsta Lögmannablaði, sem kemur út í lok nóvember, verður fjallað nánar um sumar þeirra.  

Lýðræði á tímamótum

Aðalmálstofa Lagadags, sem var undir styrkri stjórn Birgis Ármannssonar lögmanns, fjallaði um lýðræðisþróun í Evrópu og Bandaríkjunum og hvaða áhrif hún hefði á Ísland. Framsöguerindi fluttu þau dr. Silja Bára Ómarsdóttir rektor Háskóla Íslands, dr. Ragnhildur Helgadóttir rektor Háskólans í Reykjavík og dr. Kári Hólmar Ragnarsson dósent við Lagadeild Háskóla Íslands. Í pallborði voru Pawel Bartoszek alþingismaður, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, og Páll Þórhallsson skrifstofustjóri skrifstofu stjórnskipunar í forsætisráðuneytinu sem hljóp í skarðið fyrir dr. Róbert Haraldsson prófessor við Heimspekideild Háskóla Íslands sem forfallaðist á síðustu stundu.

F.v. Birgir Ármannsson, Pawel bartoszek, Silja Bára Ómarsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Kári Hólmar Ragnarsson og Páll Þórhallsson.

Dr. Silja Bára Ómarsdóttir.

Dr. Ragnhildur Helgadóttir.

Dr. Kári Hólmar Ragnarsson.

I. Þrítugur EES samningur – Nægjanlega sveigjanlegur í síbreytilegum heimi?

Rætt var um þróun EES samningsins og hver staða hans sé í dag, hvort Ísland hefði haft tækifæri til að hafa áhrif á mótun hans sem og ýmis álitaefni sem Alþingi hefur tekist á við á þessum tíma.

Málstofustjóri var dr. Margrét Einarsdóttir prófessor við Lagadeild Háskólans í Reykjavík en framsögumenn voru Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra, dr. Gunnar Þór Pétursson forseti Lagadeildar Háskólans í Reykjavík og Jónína Sigrún Lárusdóttir framkvæmdastjóri innri markaðssviðs ESA. Í pallborði voru Andrés Fjeldsted regluvörður Arion banka og Björn L. Bergsson héraðsdómari.

Margrét Einarsdóttir málstofustjóri.

Björn Bjarnason fv. ráðherra

F.v. Jónína S. Lárusdóttir og Gunnar Þór Pétursson.

II. Aðild brotaþola að sakamálum

Jóhannes Rúnar Jóhannsson héraðsdómari stjórnaði málstofu þar sem velt var upp hvort að brotaþolar í sakamálum ættu að fá aðild að málum. Breytingar voru gerðar á réttarstöðu brotaþola árið 2022 en velt var upp kostum og göllum þess að ganga lengra. Hildur Fjóla Antonsdóttir lektor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri flutti framsögu en í pallborði sátu þau Hulda María Stefánsdóttir saksóknari hjá ríkissaksóknara, Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður og Valgerður Valdimarsdóttir lögmaður.

F.v.  Hildur Fjóla Antonsdóttir, Valgerður Valdimarsdóttir, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Sigríður Elsa Kjartansdóttir Hulda María Stefánsdóttir og Jóhannes Rúnar Jóhannsson.

Það var þétt setinn bekkurinn á málstofunni um aðild brotaþola að sakamálum en það vakti athygli, þegar litið var yfir hópinn, að af 130 þátttakendum voru einungis um 30 karlar.

III. Vinnumarkaðsmódelið

Hvaða lagaskilyrði þurfa stéttarfélög að uppfylla til að geta tekið þátt í kjarasamningsgerð og hvernig hafa þau verið túlkuð í framkvæmd? Var spurt á málstofu sem Dagný Aradóttir Pind lögfræðingur BSRB stjórnaði. Framsögumenn voru Oddur Ástráðsson lögmaður, Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins og Sindri M. Stephensen settur dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og dósent við Lagadeild Háskólans í Reykjavík.

F.v. Sindri M. Stephensen, Oddur Ástráðsson, Ragnar Árnason og Dagný Aradóttir Pind.

IV. Hvað eru góð lög?

Gæði lagasetningar var umfjöllunarefni málstofu þar sem sérfræðingar gáfu einnig innsýn í undirbúning lagafrumvarpa og fjölluðu um hvað þyrfti að koma til svo frumvörp „lifðu“ á milli löggjafarþinga. Þá var einnig rætt um breytingar á lagafrumvörpum og hvernig gervigreindin geti  bætt gæði lagasetningar. Málstofustjóri var Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og framsögumenn þau Elín Ósk Helgadóttir deildarstjóri nefndardeildar Alþingis, og kennari við Háskólann í Reykjavík,

Hafdís Ólafsdóttir skrifstofustjóri skrifstofu löggjafarmála í dómsmálaráðuneytinu, og kennari við Háskólann í Reykjavík, og Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur á skrifstofu yfirstjórnar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

F.v. Haraldur Steinþórsson, Elín Ósk Helgadóttir, Guðrún Þorleifsdóttir og Hafdís Ólafsdóttir.

V. Er sanngjarnt að halda lífeyrisréttindum hjóna utan fjárskipta?

Á fjölskylduréttarmálstofu Lagadagsins var velt upp hvort tími væri kominn til að breyta ákvæðum hjúskaparlaga. Ástæðan er sú að verðmæti lífeyrisréttinda hafa aukist verulega á undanförnum áratugum og eru oft umtalsverður hluti eigna við skilnað. Málstofustjóri var Gísli G. Hall, lögmaður og framsögumenn þau Hrefna Friðriksdóttir prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, Sigurður G. Guðjónsson lögmaður og Þórey Þórðardóttir lögmaður og framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.  

F.v. Hrefna Friðriksdóttir, Þórey Þórðardóttir og Sigurður G. Guðjónsson.

VI. „Sannleikurinn er fyrsta fórnarlambið“

Rökstólar um fjórða valdið á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu var vel mannaður enda var fjallað um stöðu fjölmiðla sem fjórða valdsins, þær ógnir sem steðja að fjölmiðlafrelsi á Íslandi og áhrif á lýðræðislega umræðu.

Halldóra Þorsteinsdóttir, héraðsdómari og dósent við Lagadeild Háskólans í Reykjavík stjórnaði rökstólunum en þátttakendur voru Geir Gestsson lögmaður, Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.

Halldóra Þorsteinsdóttir stjórnaði umræðum.

F.v Logi Einarsson, Geir Gestsson, Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Sigríður Björk Guðjónsdóttir.