Lögmannablaðið er í afmælisham enda 30 ár frá því fyrsta tölublað leit dagsins ljós. Hér verður fjallað um útgáfumál Lög-mannafélagsins frá upphafi og gluggað í fyrsta Lögmannablaðið frá árinu 1995.

Eggert Claessen fyrsti formaður félagsins og Sveinn Björnsson fyrsti ritari og síðar formaður, á forsíðu fyrsta tölublaðs Lögmannablaðsins.
Hemlaför og Mörður
Tilurð útgáfunnar árið 1995 sagði Marteinn Másson ritstjóri, og framkvæmdastjóri LMFÍ, vera þá að félagið hefði vaxið hratt árin á undan, og aukið umsvif sín, en blaðinu var ætlað að vera vettvangur stjórnar og lögmanna til að fjalla um störf þeirra, réttindi og skyldur svo og störf ýmissa nefnda félagsins. Í fyrsta tölublaði var þáverandi formaður LMFÍ, Þórunn Guðmundsdóttir, með pistil sem nefnist „Hemlaför“ og þar fjallaði hún um lögmannsstarfið og ímynd stéttar í léttum dúr – en þó með undirliggjandi þunga. Hún spurði hvort ímynd stéttar væri orðin svo slæm að menn væru farnir að skammast sín fyrir að vera lögmenn: „Þeim er gjarnan líkt við ýmsar tegundir úr dýraríkinu, svo sem skunka, snáka eða refi. … („Hver er munurinn á dauðum skunki og dauðum lögmanni á þjóðveginum? Það eru hemlaför fyrir framan skunkinn.“) … Ef ekkert er að gert þá gæti farið svo að lögmenn lentu á lista yfir dýrategundir, sem eru í útrýmingarhættu, ásamt nashyrningum …“. Eitthvað var gert og nokkuð ljóst að ímynd lögmannastéttarinnar hefur batnað síðan þá. Áhugasömum er bent á að fletta upp á stórskemmtilegri grein Þórunnar sem er á heimasíðu félagsins.
Gluggað var í gamlar gerðarbækur í þessu fyrsta tölublaði og rifjað upp þegar Lögmanna-félagið var stofnað árið 1911. Stofnfundurinn var í tvennu lagi, sá fyrri haldinn á Hótel Reykjavík 27. nóvember og sá síðari 11. des-ember sem hefur síðan verið hinn opinberi afmælisdagur. Elísabet Guðbjörnsdóttir skrif-aði grein um „ESB-stólpann og EES-flísina“ og Guðmundur Ingvi Sigurðsson velti upp hvort skylduaðild að félaginu væri af hinu góða eða illa. Þá skrifaði Sif Konráðsdóttir grein um svokallað net og taldi upp gagnlegar heimasíður fyrir lögmenn.
Í þessu fyrsta tölublaði leit Mörður lög-maður dagsins ljós. Mörður átti að kynna siðareglur lögmanna á gamansaman hátt og það tókst svo bærilega að hann öðlaðist sjálfstætt líf á síðum blaðsins og fór ekki á eftirlaun fyrr en aldarfjórðungi síðar. Mörður var stórgallaður lögmaður, bæði drykkfelldur og sjálfhverfur, fáum líkur þótt kannski sumir lögmenn hafi fundið smá „Mörð“ í sér á köflum.
Að heiman riðið – fyrri útgáfur
Árið 1995 markar síður en svo upphaf útgáfu á vegum Lögmannafélags Íslands og raunar höfðu hugmyndir um útgáfu verið á lofti frá því árið 1918 er Ólafur Lárusson ræddi á fundi um að félagið beitti sér fyrir útgáfu blaðs. Einnig var rætt um útgáfumál árin 1930 og 1937 þótt ekkert yrði úr en árið 1950 fól aðalfundur stjórn að hefja útgáfu lögfræðitímarits. Ári síðar kom Tímarit lögfræðinga út í fyrsta sinn en útgáfa þess var í höndum LMFÍ til ársins 1960 er Lögfræðingafélag Íslands, sem hefði verið stofnað tveimur árum fyrr, tók við.
Blað lögmanna kom út í febrúar 1962 en því var ætlað að verða stéttarblað starfandi lögmanna, málsvari þeirra, og stóð til að gefa það út fjórum sinnum á ári. Í formála fyrsta tölublaðs segir: „Að heiman riðið er nú með þetta fyrsta blað. Lengi hefur verið að beizla og girða. Dvalizt og áð við val og föngum forms og efnis.“ Fjögur tölublöð komu út á næstu þremur árum en svo ekki söguna meir.
Félagsblað Lögmannafélags Íslands kom út í nokkur ár í byrjun áttunda áratugarins en svo kom Fréttabréf LMFÍ út samfellt frá árinu 1981 til 1995 þegar efni og ástæður þóttu til.
Tvö blöð á ári hér eftir
Marteinn Másson framkvæmdastjóri LMFÍ var fyrsti ritstjóri Lögmannablaðsins og þegar hann fylgdi því úr hlaði upplýsti hann að ætlunin væri að gefa blaðið út sex sinnum á ári. Það var þó aldrei raunin og til ársins 2002 var blaðið gefið út þrisvar til fimm sinnum hvert ár en eftir það fjórum sinnum. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að gefa blaðið út tvisvar á ári og hafa Lögmannablaðið sem lifandi fjölmiðil þess á milli á heimasíðunni www.logmannabladid.is.
Strax í upphafi var blaðinu dreift meðal lögfræðinga í réttarkerfinu og opinberra stofnanna auk lögmanna. Hefur svo haldist alla tíð síðan. Ætlunin er að leggja meira upp úr útgáfu á netinu hér eftir en blaðið verður þó áfram prentað í takmörkuðu upplagi eins og undanfarin ár.
Eyrún Ingadóttir – aðstoðarritstjóri

Tímarit lögfræðinga var gefið út af Lögmannafélagi Íslands 1951-1960. Fyrsti ritstjóri þess var dr. Einar Arnórsson fv. hæstaréttardómari.

Blað lögmanna kom út árin 1963-1965 en í ritstjórn voru þeir Benedikt Sigurjónsson, Sigurgeir Sigurjónsson og Þorvaldur Ari Arason.