„Lögmennska krefst mikillar viðveru. Eini tíminn sem lögmenn komast frá skrifstofunni er þegar dómstólar loka vegna sumarleyfa.“ Er þessi fullyrðing mýta; gamaldags viðhorf frá þeim tíma sem helstu hjálpartæki lögmanna voru ritvélar og kalkipappír? Eitt af því sem breyttist með kóvid var að fartölvur urðu algengari með sínum innbyggðu myndavélum og míkrafónum og skyndilega voru fjarfundir á hvers manns færi. Lögmannablaðinu lék forvitni á að vita hvort lögmennska henti til fjarvinnu og fékk því sérfræðinga í lið með sér; lögmann sem stundar starf sitt erlendis, lögmann sem er nýkominn heim eftir rúmlega tveggja ára fjarvinnu og einn sem stundaði fjarvinnu í byrjun aldar.

Teitur Gissurarson í vinnuaðstöðu sinni í Kaupmannahöfn.
„Dýrmætt að víkka út sjóndeildarhringinn“
Teitur Gissurarson er nýkominn heim eftir tveggja og hálfs árs dvöl í Kaupmannahöfn. Allan tímann var hann í fjarvinnu frá LEX og segir að einveran hafi vanist vel.
Hvað varð til þess að þú fórst erlendis?
Ástæða flutninganna var að konan mín fór í framhaldsnám í verkfræði við danska tækniháskólann. Í upphafi íhugaði ég að leita mér að vinnu úti, og ámálgaði það við mína yfirmenn, en þegar þeir buðu mér að halda starfinu og vinna í fjarvinnu tók ég því þakklátur. Planið var enda alltaf hjá okkur hjónum að enda heima á Íslandi. Ég var því feginn að geta aflað mér starfsreynslu hér heima, þrátt fyrir að vera erlendis, enda stefnan að byggja ferilinn upp á hér.
Hverjar voru helstu áskoranirnar?
Það tók örlítinn tíma að venjast því að vera í fjarvinnu. Þegar við fluttum út voru einungis þrír mánuðir liðnir frá því að ég útskrifaðist úr lagadeildinni, svo ég var enn þá að finna fjölina mína innan stofunnar. Þá kom sér vel að ég hafði unnið sem laganemi hjá LEX í tvö ár – svo ég þekkti auðvitað alla og átti þ.a.l. kannski auðveldara en ella með að fá verkefni og kalla eftir millilandaaðstoð ef með þurfti.
Aðaláskoranirnar voru tvíþættar. Annars vegar tók tíma að venjast einverunni. Ég var með góða skrifstofuaðstöðu heima og þurfti því ekki að fara út úr húsi, en félagsskapurinn var á móti ekki mikill, eins og gefur að skilja. Það vandist þó ágætlega, en undir það síðasta var ég orðinn ögn þreyttur á því að hádegishléið færi stundum bara í að borða rúgbrauð með spægipylsu yfir vaskinum í eldhúsinu og halda svo áfram að vinna. Það er óneitanlega gott að geta spjallað við góða vinnufélaga um eitthvað annað en vinnuna.
Hins vegar gat stundum reynt á, þegar fram liðu stundir og ég var farinn að starfa meira í kringum rekstur dómsmála, að skipuleggja sig í kringum aðstæður þar sem þurfti að mæta í eigin persónu. Þá kom sér vel að eiga góða vinnufélaga sem gátu mætt í fyrirtökur o.þ.h. Einnig voru dómarar liðlegir við að leyfa mér að mæta í gegnum fjarfundabúnað ef það átti við og hentaði.
Allt gekk þetta þó vel og þegar ég hafði vanist einverunni fór ég líka að sjá ýmsa kosti við þetta fyrirkomulag, sem er jafnvel ögn erfitt að missa nú þegar ég er kominn til baka á kontórinn í Borgartúni. Fyrir það fyrsta var t.a.m. jafnan auðveldara að halda utan um skráningu tíma og lenda ekki eftir á með það. Það að geta verið byrjaður að vinna korteri eftir að maður vaknar, án þess að þurfa að koma sér á milli staða, og geta svo unnið skilvirkt og án truflunar, vandist vel – og olli því að ég var sjaldnast í vandræðum með að ná góðri tímaskráningu. Sömuleiðis vandist afar vel að vera staddur heima um leið og vinnudegi lauk, og geta t.d. verið kominn út í göngu- eða hlaupatúr, út í búð eða byrjaður að elda kvöldmat, örfáum mínútum eftir að síðasti tölvupóstur dagsins var sendur.
Hvaða áhrif hefur það haft á starf þitt að vera staðsettur erlendis?
Ég man t.d. ekki eftir að hafa þurft að neita verkefnum vegna búsetunnar erlendis, en vissulega fékk ég, sem fulltrúi, lungann úr mínum verkefnum frá mínum yfirmönnum, svo hugsanlega hefur mér ekki verið úthlutað einhverjum verkefnum. Það var hins vegar alltaf gaman þegar til mín var sérstaklega leitað vegna tenginganna í Danmörku og dönskukunnáttu – sem jókst vitaskuld þegar leið á dvölina ytra. Ég man t.a.m. eftir að hafa farið oftar en einu sinni á bókasöfnin í borginni í heimildaleit vegna einhverra mála hér heima, og að hafa stigið inn í mál þegar það þurfti að vera í samskiptum á dönsku, t.d. við stjórnvöld.
Hvernig nýttir þú tæknina til að halda sambandi við viðskiptavini og samstarfsfólk á Íslandi?
Svo sem bara á þann máta sem flestir þekkja. Síminn er alltaf við höndina, og svo nýtti ég Teams þegar þurfti. Ég var fljótlega farinn að átta mig á því að eftir kóvid tímabilið er það orðið svo sjálfsagt að vera í samskiptum yfir netið að fólk var ekkert að velta því fyrir sér að maður legði til að taka fjarfund. Mig grunar því að sumir hafi ekkert vitað að þeir væru á fundi með manni í útlöndum – enda skipti það engu máli.
Þurftir þú að koma til Íslands vegna vinnunnar?
Já, það kom fyrir að ég þurfti að skjótast heim, þegar líða tók á dvölina og ég var farinn að taka að mér málflutning fyrir dómstólum í meira mæli.
Hvaða ráð myndir þú gefa öðrum lögmönnum sem íhuga að fara sömu leið?
Ég var oft spurður út í einveruna og hvort það væri ekki erfitt að vera alltaf heima. Hins vegar kom það mér á óvart hvað heimavinnan vandist vel og eftir u.þ.b. hálft ár fannst mér það ekkert mjög þungur baggi að bera, þó svo að ég hafi ekki viljað starfa í fjarvinnu að eilífu. Með það í huga myndi ég ráðleggja lögmönnum að vera ekki hræddir við að prófa, ef það er það sem menn á annað borð hræðast. Auðvitað er það einstaklingsbundið hvernig fólk upplifir slíka vinnu, en getur líka boðið upp á ýmsa kosti og tækifæri. Þegar allt kemur til alls var þetta yndislegur tími. Okkur fannst frábært að búa í Kaupmannahöfn og dýrmætt að hafa fengið að reyna nýja hluti og víkka sjóndeildarhringinn.
Eyrún Ingadóttir, aðstoðarritstjóri